Akureyri Handboltafélag tryggði sér áframhaldandi veru í N1-deild karla í handbolta næsta vetur þegar liðið gerði jafntefli við Fram á heimavelli í dag. Jafnteflið eitt og sér hefði ekki dugað Akureyri til að halda sætinu í deildinni en þar sem að Stjarnan tapaði á sama tíma fyrir Haukum 27-31 skiptu úrslitin í leik Akureyrar ekki máli.
Leikur Akureyrar og Fram var lengst af fremur bragdaufur og var mikil deyfð yfir bæði leikmönnum Akureyrar sem og áhorfendum lengst af leik. Reyndar átti það einnig við um gestina sem þó héldu frumkvæðinu nær allan leikinn og leiddu í hálfleik 15-13.
Þegar um 8 mínútur voru til leiksloka virtist stefna í öruggan sigur Fram sem þá hafði fimm marka forystu 28-23 og Akureyringar algjörlega heillum horfnir. En svo fór þó ekki því á þessum tímapunkti small framliggjandi vörn Akureyringa algjörlega saman í bland við að Hafþór Einarsson, sem komið í markið í stað Harðar Flóka Ólafssonar á þessum skömmu áður, fór að verja eins og berserkur. Akureyringar minnkuðu muninn í eitt mark þegar um þrjár mínútur voru eftir 27-28 og brenndu af þremur tækifærum til að jafna á næstu mínútum áður en Andri Snær Stefánsson jafnaði leikinn 28-28 þegar 15 sekúndur voru til leiksloka.
Frammarar geystust í sókn ef sterk vörn Akureyrar hélt og jafntefli varð niðurstaðan. Úr því sem komið var má segja að lokahnykkurinn á tímabilinu hafi verið nokkuð jákvæður hjá Akureyri, því liðið náði að tryggja sér stig eftir að hafa verið komnir í því sem næst vonlausa stöðu.
Bestu menn Akureyrar í leiknum voru þeir Jónatan Magnússon, Oddur Gretarsson ásamt því að Andri Snær Stefánsson og Hreinn Hauksson áttu góða spretti.
Spennandi verður að fylgjast með framvindu handboltamála á Akureyri fram að næsta tímabili því mikill liðsstyrkur er að öllum líkindum á leiði til liðsins. Nánar verður fjallað um þessi mál í Vikudegi á fimmtudag.