Akureyrarhöfn í hópi þriggja bestu á heimsvísu

Akureyrarhöfn er eftirsótt meðal skemmtiferðaskipa.
Akureyrarhöfn er eftirsótt meðal skemmtiferðaskipa.

Akureyrarhöfn er tilnefnd sem Port of the year eða Höfn ársins af Seatrade Cruise Award 2017. Akureyrarhöfn er komin í þriggja hafna úrtak ásamt Port of OldenNordfjord í Noregi og BVI Ports Authority í Bretlandi. Valið fer fram þann 6. september nk. en það þykir mikill heiður að fá tilnefningu frá Seatrade Cruise Award.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, segir þetta mikla viðurkenningu. „Þetta er frábært fyrir okkur og ferðaþjónustuna hér. Það er samspil margra þátta sem veldur því að við skorum þetta hátt. Fyrir skipin er auðvelt að sigla hingað inn, veðrið er almennt þægilegt og fólk sækir í hreint loft. Hér er falleg náttúra og öruggt umhverfi. Í dag er það svo að fólk leitar mikið á örugga staði,“ segir Pétur. 

Pétur segir útnefninguna gera það að verkum að auðveldara verði að fá skemmtiferðaskip til Akureyrar. „Fólk hlýtur að horfa til þeirra staða sem skara fram úr,“ segir Pétur. Alls koma 123 skemmtiferðaskip til Akureyrar á árinu 2017 og 29 skip til Grímseyjar. Spurður hvort hægt sé að taka endalaust við fleiri skipum segir Pétur:

„Það hefur gengið bærilega hjá ferðaþjónustunni að fylgja með í þessari öru þróun í komu skemmtiferðaskipa og ég get t.d. nefnt hvalaskoðunarþjónustuna sem dæmi. Þannig að við getum vel tekið á móti enn fleiri skipum. Sérstaklega ef þau kæmu að vori eða hausti,“ segir Pétur.

Nýjast