Akureyrarbær fundar með forsvarsmönnum SÁÁ

Að óbreyttu mun göngudeild SÁÁ á Akureyri loka.
Að óbreyttu mun göngudeild SÁÁ á Akureyri loka.

Akureyrarbær mun funda með forsvarsmönnum SÁÁ í bæjarráði á fimmtudaginn kemur þann 1. febrúar. Þar verður farið yfir stöðuna en eins og greint var frá í síðustu viku mun SÁÁ loka göngudeildinni á Akureyri á þessu ári að óbreyttu vegna niðurskurðar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í skriflegu svari til Vikudags að Akureyrarbær hafi skrifað undir samning við SÁÁ í desember sl. sem gildir út árið 2018. Þar var m.a. kveðið á um að aðilar myndu vinna að því í sameiningu á samningstímanum að tryggja rekstur göngudeildarinnar til framtíðar.

„Við höfum vitað af erfiðleikum í rekstri SÁÁ en þessi ákvörðun kemur okkur í opna skjöldu,“ segir Guðmundur Baldvin. Hann segir Akureyrarbæ hafa lagt til fjármagn með starfseminni um árabil og hafi þannig stutt við þessa starfsemi.

Spurður segir Guðmundur Baldvin að á þessum tímapunkti hafi engin ákvörðun verið tekin um aukið framlag. 

„Við höfum þrýst á, í gegn um árin, að hluti af fjárframlögum ríkisins til SÁÁ sé eyrnarmerktur þeirri starfsemi sem hér er rekin þannig að menn byrji ekki á því að skera af þessa mikilvægu þjónustu sem veitt er á landsbyggðinni um leið og rekstur þyngist á suðvesturhorninu. Við höfum þegar vakið athygli þingmanna á þessari stöðu og ég er fullur bjartsýni á að þegar allir leggjast á eitt takist okkur að tryggja þessa mikilvægu þjónustu hér til framtíðar,“ segir Guðmundur Baldvin.

Rúv greindi frá því að kostnaður við rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri sé 17 milljónir á ári. Göngudeild SÁÁ hefur verið starfrækt á Akureyri frá 1993 og veitt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Þá hefur fólk með spilafíkn einnig fengið aðstoð þar. Í fyrra voru um 1.200 komur á göngudeildina, þar af 350 viðtöl við ráðgjafa. Flestir koma þangað að lokinni meðferð á Vogi eða í Vík, segir í frétt Rúv.  

Nýjast