Akureyrarbær undirritaði í dag nýjan samstarfssamning við Fjölsmiðjuna til næstu þriggja ára. Bærinn greiðir Fjölsmiðjunni 4 milljónir króna árlega á þessu tímabili. Samningurinn var undirritaður í húsnæði Fjölsmiðjunnar við Óseyri. Markmið samningsins eru að efla Fjölsmiðjuna í hlutverki sínu sem starfsþjálfunarstaður fyrir ungt fólk 16 24 ára. Ennfremur að auka tengsl og samvinnu Fjölsmiðjunnar og þeirra aðila innan bæjarfélagsins sem vinna með ungu fólki. Fjölsmiðjan veitir ungu atvinnulausu fólki vinnu með það að markmiði að hver einstaklingur njóti sín og verði færari í að takast á við kröfur umhverfisins ýmist á vinnumarkaði eða í námi. Þegar ungmennin eru tilbúinn eru þau studd í vinnu eða skóla. Í Fjölsmiðjunni er rekið mötuneyti, bílaþvottastöð, verslun með notuð húsgögn og fleira og móttaka á tölvum og öðrum raftækjum til endurvinnslu.