Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að Akureyrarbær hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf við Ráðgjöfina heim í júlí 2011. Akureyrarbær auglýsti í júní 2011 laust til umsóknar starf ráðgjafa hjá búsetudeild bæjarins. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari eða að minnsta kosti jafn hæfan og kona sem ráðin var.
Akureyrarbær taldi hins vegar að konan hefði verið hæfasti umsækjandinn á grundvelli reynslu og persónulegra eiginleika. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði bæði meiri menntun og starfsreynslu en sú sem ráðin var. Í ljósi þeirrar niðurstöðu hvíldi það á kærða að leiða líkur að því að kæranda hafi ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis. Taldi nefndin ekki nægilega fram komið að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið. Akureyrarbær taldist því hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf ráðgjafa búsetudeildar Akureyrarbæjar, segir m.a. í úrskurði kærunefndar.