Á síðasta fundi skipulagsnefndar lagði Sóley Björk Stefánsdóttir, V-lista, til að nefndin skoðaði möguleikana á að Akureyrarbær hafi frumkvæði að samstarfi við Eyjafjarðarsveit um að ráðist verði í gerð göngu-/hjólareiðastígs sem tengir saman miðbæ Akureyrar og Hrafnagil. Í greinargerð segir að göngu-/hjólareiðastígur af þessu tagi mundi stórefla möguleika fjölskyldna til útivistar og hreyfingar þar sem komin væri möguleiki á að hjóla og/eða ganga hóflega krefjandi leið fram fjörðinn á jafnsléttu. Er einnig um mikið öryggis- og hagsmunamál fyrir íbúa og gesti bæjarins að ræða, sérstaklega að sumarlagi þar sem hætta skapast fyrir þá sem nú þegar nýta þessa leið til útivistar. Fulltrúar skipulagsnefndar hafa átt einn fund með fulltrúum skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar þar sem m.a. var rætt um nauðsyn þess að koma á öruggri göngu- og hjólreiðastígatengingu frá miðbæ Akureyrar og að Hrafnagili. Skipulagsnefnd tekur undir tillögu Sóleyjar og hvetur því Eyjafjarðarsveit og Vegagerð ríkisins til að taka höndum saman um lagningu göngu- og hjólaleiðarinnar. Formanni skipulagsnefndar og skipulagsstjóra var falið að vinna að málinu.
Á síðasta fundi skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar var rætt um stíg milli Reykárhverfis og Akureyrar. Farið var yfir nýjustu tillögu að göngu-, hjóla- og reiðstíg frá Reykárhverfi að Akureyri og ákveðið að setja í formlegt skipulagsferli, segir í bókun nefndarinnar.