„Farþegarnir sem koma hingað að vetri eru að leita að ævintýrum og náttúru yfir vetrartímann. Þeir sækja hingað til að sjá norðurljósin, prófa böðin okkar og fara í jeppaferðir, sleðaferðir, hundasleða, heimsækja söfn og sýningar og gönguferðir svo eitthvað sé nefnt,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. . „Við leggjum mesta áherslu á vetrarflugin, en þannig getum við lagfært árstíðarsveiflu sem við búum enn þá við hér á svæðinu.“
Arnheiður segir margt fram undan í ferðaþjónustu norðan heiða. Auk þess sem flug á vegum heimafélagsins Niceair sé í boði eru þrjú erlend flugfélög með beint flug á Akureyrarflugvöll í ár og segir hún meira fram undan í þeim efnum
Fyrsta vetrarflug Voigt Travel/Transavia var í liðinni viku frá Amsterdam. Félagið er með 9 flug á áætlun, tvisvar í viku fram til 10. mars. Voigt Travel hefur flogið beint til Akureyrar yfir vetrartímann frá árinu 2019 og þá frá Amsterdam, en í sumar býður félagið að auki upp á flug frá Rotterdam. Alls verða 13 flug þaðan í sumar, á tímabilinu frá júní til ágúst.
Í ár er von á 6-700 flugferðum um Akureyrarflugvöll sem koma í beinu flugi frá 8 til 10 áfangastöðum Gera má ráð fyrir að farþegar sem komi beint til Akureyrar verði á bilinu 40 til 50 þúsund talsins.
Condor og Niceair verða með áætlunarflug og Voigt og Edelweiss eru með tímabundin leiguflug. Condor hefur boðað 24 flug frá miðjum maí og fram í lok október og er flogið frá Frankfurt. Edelweiss flýgur frá Zurich, alls 7 flug í júlí og ágúst.
Nánast allir ánægðir með heimsókn á Norðurland
Farþegar sem koma yfir veturinn eru margir í skipulögðum ferðum og segir hún ferðaskipuleggjendur á svæðinu mjög vana því að sinna farþegum í hvaða veðri sem er, „og breyta áætlunum eftir þörfum til að tryggja góða upplifun gestanna.“ Þó farþegar lendi á Akureyri og ferðist um svæðið í kring fari sumir hverjir í lengri ferðir, jafnvel um Austurland og Suðurland.
„Þessi fjöldi sem kemur í beinu flugi er mikil lyftistöng fyrir svæðið hérna og kallar á mikinn undirbúning og skipulag,“ segir Arnheiður. Mikil vinna sé hafin við vöruþróun og markaðssetningu fyrir allt það svæði sem hefur ávinning af beinu flugi, alveg frá Hrútafirði og austur á land. „Samstarf fyrirtækjanna skiptir öllu máli í uppbyggingu á nýjum áfangastað og hefur það sýnt sig að þannig náum við bestum árangri fyrir svæðið og fyrir gestina okkar en 97% þeirra fara héðan ánægðir með heimsóknina á Norðurland.