Áhersla á aukinn kaupmátt í komandi kjaraviðræðum

Áhersla verður lögð á að efla kaupmátt í komandi viðræðum um endurnýjun kjarasamaninga að sögn formanna tveggja verkalýðsfélaga á Akureyri, Björns Snæbjörnssonar formanns Einingar-Iðju og Úlfhildar Rögnvaldsdóttur formanns Félags verslunar- og skrifstofufólks.   

Björn segir að um 1.500 manns hafi tekið þátt í vinnu vegna undirbúnings fyrir komandi kjaraviðræður, en félagið hefur nú sent sínar kröfur til Starfsgreinasambandsins en þar á bæ er verið að safna saman kröfum stéttarfélaganna. Björn telur að í kringum 10. nóvember næstkomandi verði kröfur tilbúnar og endanlega frá þeim gengið.  „Menn ætla að vanda undirbúning og fara sér hægt í þessum efnum.  Það er alveg ljóst að það er á brattann að sækja víða, ástandið er miserfitt eftir starfsgreinum," segir Björn.  Sumar greinar standi ágætlega og hafi meira bolmagn en aðrar. 

Björn segir að félagið krefjist aukins kaupmáttar og að samið verði um kauphækkanir í krónutölu.  Þá sé mikilvægt að lægstu taxtar hækki umfram önnur laun.  Eins vill félagið að ríkið hækki skattleysismörk og skattprósenta á laun undir 250 þúsund krónum lækki.  „Aðaláherslan er sú að kaupmáttur aukist, það skiptir ekki endilega máli hvað krónurnar eru margar heldur hvað fæst fyrir hverja krónu.  Ég er hæfilega bjartsýnn, enda hef ég þá trú að ef við stöndum saman næst árangur," segir Björn.

Úlfhildur segir að félagið hafi efnt til kjaraþings i september síðastliðinum þar sem línur voru lagðar og kröfur þess hafi verið sendar til Landssambands íslenskra verslunarmanna sem fer með samningsumboð fyrir hönd FVSA.  Hún segir að mikil áhersla sé lögð á að auka kaupmátt í kröfugerð félagsins og eins sé mikilvægt að lægstu laun hækki.  Það sé algjörlega út í hött að lægstu laun séu svipuð og atvinnuleysisbætur.  Á kjaraþingi félagsins í liðnum mánuði kom einnig skýrt fram sterk óánægja félagsmanna með það óréttlæti sem ríkir varðandi lífeyrisréttindi og þann mismun sem er á milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberum.  Lífeyrisréttindi hinna fyrrnefndu hafa verið skert umtalsvert, en ríkið tryggi rétt sinna starfsmanna.  „Þetta finnst fólki hróplegt óréttlæti," segir Úlfhildur.

Þá nefnir hún að menn hafi miklar áhyggjur af atvinnuleysi innan félagsins, en alltof hátt hlutfall verslunar- og skrifstofufólks sé án atvinnu.  „Atvinnuleysi innan okkar raða er því miður vaxandi og engin teikn á lofti um að breyting verði til batnaðar strax.  Það er erfiðir tímar og margir eru komnir í þrot, það er því ekki hægt að segja að bjart sé framundan," segir Úlfhildur.

Nýjast