Afmælismerki Akureyrarkaupstaðar formlega kynnt

Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar á næsta ári, var efnt til hönnunarsamkeppni á vegum Akureyrarbæjar í samstarfi við Myndlistarskólann á Akureyri nú í haust og verkefnið lagt fyrir 22 nemendur, á fyrsta, öðru og þriðja ári, við listhönnunardeild skólans. Fyrir valinu varð merki Sigrúnar Bjargar Aradóttur, nemanda á þriðja ári en merkin í hönnunarsamkeppninni voru kynnt eftir hádegi í dag. Fyrir utan heiðurinn fékk Sigrún 150.000 krónur í sigurlaun.

Sigrún var að vonum ánægð með niðurstöðu dómnefndar. Hún sagði að vinna við merkið hafi tekið þó nokkurn tíma. “Eins og sennilega flestir aðrir var ég búin að gera mörg slæm merki áður en þetta kom. En þetta var ótrúlega gaman og það er mjög mikill heiður fyrir mig að eiga þetta afmælismerki,” sagði Sigrún Björg. Að mati dómnefndar uppfyllir merki Sigrúnar allar kröfur sem gerðar eru til tækifærismerkis sem þessa. Þannig býður uppbygging merkisins upp á ólíkar birtingarmyndir, t.d. í smækkaðri framsetningu á minjagripum.  Í greinargerð sem fylgir vinningstillögunni segir hönnuðurinn m.a.: „Merkið er byggt á merki Akureyrarkaupstaðar með tilvísun í örninn.“ Það er álit dómnefndar að þessi tilvísun gangi fyllilega upp. "Sumpart leitar höfundurinn fanga í fortíðinni sem núverandi byggðamerki byggir á og um leið er framsetningin framsækin og í takt við núið. Myndmál merkisins er sterkt og tengingin við Akureyri skýr; áberandi form í merkinu eru vængir arnarins sem teygjast til himins en eru um leið umfaðmandi.  Með því að rjúfa merkið í nokkur form, þá myndar bilið á milli þeirra töluna 150.  Þetta gerir að verkum að merkið stendur vel fyrir sínu án stuðnings af letri, sem sannarlega er styrkur.”

Dómnefndina skipuðu: Pétur Bolli Jóhannesson, skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar, Bryndís Óskarsdóttir, grafískur hönnuður, Guðrún Harpa Örvarsdóttir, formaður Myndlistarfélagsins á Akureyri, Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri, Arnfríður Arnardóttir, myndlistarmaður og kennari og Þórhallur Kristjánsson, grafískur hönnuður. 

Hér má sjá afmælismerkið og önnur merki sem bárust í samkeppnina. Pétur Bolla formann dómnefndar og Sigrúnu Björgu sigurvegara í samkeppninni.

Nýjast