Í síðustu viku voru tvær fréttir af flugmálum áberandi. Annars vegar voru fréttir unnar upp úr góðri grein Ásthildar Sturludóttur, sem dró fram jákvæða þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll, og hins vegar var um að ræða frétt Morgunblaðsins af fundi Isavia ohf. með Samtökum atvinnurekenda á Suðurnesjum
Þróun undanfarinna ára á flugi um Akureyrarflugvöll hefur verið slík að það er nú yfir vafa hafið að flug um landshlutann eigi rétt á sér og er vel raunhæft á viðskiptalegum og veðurfarslegum forsendum. EasyJet flýgur nú 4 sinnum í viku og fljótlega bætast Edelweiss og Transavia við. Einhverjir hafa gagnrýnt styrkveitingar úr Flugþróunarsjóði og niðurgreiðslur gjalda af hálfu Isavia innanlands, en þessi stuðningur er að sjálfsögðu fjármagnaður með tekjum af þeim ferðamönnum sem fljúga til Akureyrar, en hefðu kannski ekki ella komið til Íslands. Ríkissjóður fær að jafnaði 30% þess fjár sem erlendir ferðamenn verja á Íslandi. Með öðrum orðum, stærri kaka skapar meiri tekjur í ríkissjóð, veitir súrefni til einangraðri byggða sem ekki njóta nálægðar við Keflavíkurflugvöll, og geta nú betur byggt upp í ferðaþjónustu og fjölmörgum öðrum atvinnugreinum með aukningu millilandaflugs um Akureyri. Svona til viðbótar við almennt bætt lífsskilyrði og ánægju þeirra sem þar búa.
Flug um Akureyrarflugvöll hefur sannað gildi sitt
Flug um Akureyrarflugvöll hefur sannað gildi sitt og mun eingöngu aukast til framtíðar, þrátt fyrir slæmt atlæti og fásinni um rekstur, viðhald og uppbyggingu annarra flugvalla á Íslandi en Keflavíkur. Stór orð? Skoðum málið aðeins betur. Þeir sem þekkja til vita að kerfislæg skekkja hefur verið uppi lengi, sem í reynd afhjúpast svo fallega í fundi Isavia með Samtökum atvinnurekenda á Suðurnesjum, þar sem tímasett uppbyggingaráætlun á Keflvíkurflugvelli var kynnt.
Áður en við förum aðeins meira á dýpið í því að greina þessa ríkisreknu samkeppnisbjögun er rétt að rifja upp hvernig þessum málum er háttað.
Opinbera hlutafélagið Isavia er með eina eign á sínum efnahagsreikningi, Keflavíkurflugvöll. Eigendastefna, sem enn hefur ekki verið endurskoðuð fyrir Isavia ohf., tekur bara til þess að það fyrirtæki skuli skila arðsemi til ríkissjóðs. Ekkert um hlutverk við uppbyggingu, rekstur og öryggi flugvallakerfisins í heild sinni, heldur bara þetta, að reka risavaxna verslunarmiðstöð á Reykjanesi með tilheyrandi flugbrautum á arðsaman hátt.
Allir stjórnamenn ISAVIA af höfuðborgarsvæðinu
Allir aðrir flugvellir landsins, þ.m.t. Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur (varaflugvellir landsins), eru á ríkisreikningnum en reknir frá ári til árs samkvæmt þjónustusamningi við dótturfélagið Isavia Innanlands. Megnið af því fé sem þarf til rekstrar og uppbyggingar flugvallarkerfisins utan Keflavíkur kemur af fjárlögum hvers árs. Sú fjárhæð hefur ekki mikið breyst undangengin 15 ár og ekki verið í neinu samræmi við grunnþörf til að skapa nútímalegt og öruggt flugvallarkerfi. Þetta gæti þó breyst ef ný-upptekið varaflugvallargjald skilar sér í reynd til málaflokksins, en líklegt að það fari bara í svarthol opinberra fjármála eins og sagan hefur viljað kenna okkur til þessa. Það hvort nauðsynlegur aðflugsbúnaður sé endurnýjaður eða yfirborð flugbrauta sé í samræmi vð öryggiskröfur, svo dæmi séu tekin, fer í reynd alveg eftir stemningu og pólitískum vindum á hverju ári. Það má fara aftur til stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs 2013 til að finna nýja eigendastefnu ISAVIA sem eitt áherslumála þeirrar ríkisstjórnar, en ekkert gerðist í tíð þeirrar stjórnar. Þverpólitískt getuleysi síðan þá hefur tryggt að ekkert hefur breyst og enn er ISAVIA einhvers konar ríki í ríkinu með alla stjórnarmenn af höfuðborgarsvæðinu í endalausu hópefli um Keflavík og eflingu tengimiðstöðvar á Íslandi, óháð því hvernig vindar blása að því er virðist.
Er raunhæft að halda áfram í 60 ára gamalt líkan um ferðir yfir Atlantshafið með viðkomu á Íslandi, í ljósi sífellt langdrægari mjóþotna sem komast hagvæmt milli meginlandanna án viðkomu á Íslandi?
Innspýting á Reykjanesið gerir lítið fyrir uppbyggingu atvinnulífs, starfsskilyrði og lífskjör annars staðar á landinu
Hversu mikils virði er að ríkissjóður byggi í reynd upp innviði sem sniðnir eru að einum landshluta og einu félagi og ætli jafnframt að fara í tröllauknar viðbætur þar á, þrátt fyrir vísbendingar um samdrátt og verri horfur? Hversu mikilli fákeppnisbjögun veldur þetta í uppbyggingu ferðaþjónustu og atvinnulífs um land allt?
Í strjálbýlu og fámennu landi gefur augaleið að ekki eru allir flugvellir arðsamir, en samt sem áður finnst okkur sjálfsagt að halda úti mörgum flugvöllum vegna sjúkraflugs, innanlandsflugs, öryggis þegar Keflavík lokar, halda landinu í byggð etc., etc. Auk þess er sú eðlilega krafa að opna fleiri gáttir inn og út úr landinu lykill að því að landið byggist í heild sinni, en ekki bara á Reykjanesi. Bara á næstu þremur árum skal fjárfest fyrir um 38 milljarða króna á Keflavíkurflugvelli. Til samhengis er gaman að rifja upp að eingöngu 900 milljónir fengust út úr sérstökum Covid-fjárfestingarframlögum ríkissjóðs til að stækka flugstöðina á Akureyri (takið eftir, ekki framkvæmd Isavia, heldur Covid-átak), sem vitað var frá upphafi að væri of lítil viðbót til að styðja við stóraukið flug um Akureyrarflugvöll.
Í reynd er uppbygging Isavia ohf. með þeim hætti að hún hamlar uppbyggingu annarra flugvalla á landinu og tefur fyrir skynsamlegri nýtingu þeirra og þá hliðaráhrifum eins og jafnara álagi á landið og betri dreifingu ferðamanna um landið allt. Staðbundin innspýting á Reykjanesið gerir lítið fyrir uppbyggingu atvinnulífs, starfsskilyrði og lífskjör annars staðar á landinu. Enn minna síðan fyrir flugöryggi eða viðhald allra annarra flugvalla á landinu.
Okkur væri réttast að líta til þekktra fordæma frá nágrannalöndum okkar, þar sem einn og sami aðili er ábyrgur í reynd fyrir öryggi, rekstri, viðhaldi og markaðssetningu allra flugvalla í grunnneti. Þannig eru til Swedavia í Svíþjóð og Avinor í Noregi, sem reka sín kerfi þannig að tekjuskapandi einingar halda uppi kerfinu og tryggja nútímalegt öryggi þeirra allra (lesist: aðflug, leiðsögu, flugbrautir, flughlöð etc etc).
Á tímum tíðræddra ,,plana”, vantar ,,plan”
Hversu galið er til dæmis að Isavia verji hundruðum milljóna á ári í að markaðssetja og selja Keflavíkurflugvöll, á sama tíma og dótturfélag þess er að reyna að gera hið sama af veikum mætti og litlum fjármunum fyrir Akureyri og Egilsstaði. Hér er ólíku saman að jafna og bjögunin bara versnar.
Af hverju er ekki sama eining að reyna að markaðssetja alla velli og stækka í reynd “vöruúrvalið” sitt með því að bjóða upp á fjölbreyttari valkosti á Íslandi fyrir erlend flugfélög. Isavia hefði þá amk þrjá flugvelli til að bjóða erlendum flugrekendum, en ekki bara einn.
Til að jafna þetta og gera af viti svo landið í heild sinni vaxi og njóti þarf að breyta eigendastefnu ISAVIA þannig að því verði gert að tryggja öruggar flugsamgöngur um land allt. Að fjárfesting í grunninnviðum komi á undan hliðarverkefnum eins og auknu verslunarrými og fleiri kaffistofum í Keflavík. Já, ég veit að einhverjir verða fúlir með að fresta einni tengibyggingu í viðbót eða auka-verslunarrými fyrir ört fækkandi tengifarþega, en tryggjum fyrst varaflugvallarkerfið og flugöryggi, áður en fjárfest er áfram í áhættusömum gæluverkefnum.
Við getum ekki verið með landið utan Reykjaness í líknandi meðferð sé horft til þess hvernig ríkissjóður stillir sínar áherslur og fjárfestir í innviðum og grunnþjónustu landsins. Á þetta við um flesta þjónustu sem ríkissjóður hefur á sínum snærum, samgöngur og heilbrigðismál ekki síst.
Á tímum tíðræddra ,,plana”, vantar ,,plan” um að halda landinu í byggð og tryggja jafnræði allra landsmanna til grunnþjónustu.
Pistill þessi birtist fyrst á Feisbókarvegg ÞLS