Sigurvin Jónsson hæsnabóndi með meiru á Akureyri, hefur ákveðið að gefa íbúum á Öldrunarheimilum Akureyrar, Hlíð, fjórar hænur með vorinu. Þar stendur til að hefja hæsnarækt og fleira og sagðist Sigurvin vilja leggja sitt af mörkum. Sigurvin mun jafnframt fá titilinn ráðgjafi í hænsarækt hjá íbúunum á Hlíð og hann sagðist mjög stoltur af þeirri nafnbót.
Íbúar á Hlíð hafa komið í heimsókn til Sigurvins og skoðað hænurnar sem hann er með í bakgarði sínum og leist þeim vel á. Sigurvin er sennilega þekktasti hænsabóndi bæjarins, ekki síst þar sem hann á hanan Hrólf og syni hans tvo, Odd Helga og Böðvar, myndarlegan hæsnahóp og kanínuna Dísu.