Unglingar úr æskulýðsfélögum kirkjunnar í Austurlandsprófastsdæmi (ÆSKA) og Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi (ÆSKEY) hittust um helgina á svokölluðu æskulýðsmóti á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit. Þar voru um 80 manns með leiðtogum og starfsfólki, Mótsstjóri er Guðmundur Guðmundsson, héraðsprestur. Mótsetning var að loknum kvöldmat á föstudag. Eftir að hafa svalað hreyfiþörfinni í sundlaug og íþróttasal tóku unglingarnir þátt í skemmtilegri kvöldvöku. Þar næst var hægt að velja um að horfa á mynd, hafa það rólegt eða fara á magnað diskó í félagsmiðstöð skólans. Í gær laugardag, var unnið í fjölbreyttum hópum. Þar á meðal var unnið að myndlistar-, tónlistar-, og leiklistarverkefnum, hægt að læra ICESTEP-dansa og vinna í fjölmiðlunarhópi. Dagskrá laugardagsins lauk á Akureyri. Þar tóku unglingarnir þátt í hæfileikakeppni Norður- og Austurlands, sem kallast því skemmtilega nafni HÆNA. Keppt var í þremur flokkum, söng og tónlist, dansi og líkamstjáningu og frjálsum flokki, með t.d. upplestri á eigin sögu, flutningi á eigin kvæði, spuna eða töfrabrögðum. Einnig var hægt að sýna stuttmyndir. HÆNA hefur verið haldin um árabil og var að þessu sinni í safnaðarsal Akureyrarkirkju. Mótinu líkur í dag sunnudag með guðþjónustu í Svalbarðskirkju. Þema mótsins er sótt í Biblíuna Jesús segir: Náð mín nægir þér.
Höfundar greinarinnar eru á bilinu 13-14 ára og taka þátt í æskulýðsstarfinu í Þingeyjarsveit (Skjálfanda), þeir Pétur Rósberg Þórisson, Stefán Ásgeir Eyfjörð Ásgeirsson og Huldar Trausti Valgeirsson.