Aðstæður batna til muna við flutning í Vestursíðu

Fækkað hefur á biðlistum hjá Öldrunarheimilum Akureyrar. Mynd: Hörður Geirsson.
Fækkað hefur á biðlistum hjá Öldrunarheimilum Akureyrar. Mynd: Hörður Geirsson.

„Með þessari ráðstöfun er ekki verið að fækka plássum innan öldrunarþjónustunnar á Akureyri, þau verða áfram 188 talsins líkt og verið hefur,“ segir Inda Björk Gunnarsdóttir formaður félagsmálaráðs. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í liðinni viku tillögu félagsmálaráðs, sem lagði til að starfsemi sem nú er í einbýlishúsinu Bakkahlíð 39, íbúar og starfsfólk, flytji í eina einingu í  Vestursíðu þegar nýja hjúkrunarheimilið þar verður tekið í notkun. Bakkahlíð er sambýli fyrir fólk  með minnissjúkdóma, þar búa átta íbúar og allir í sérbýli.

Inda Björk segir að af þeim 188 plássum sem til ráðstöfunar eru nú séu 44 á Kjarnalundi, þar af 7 skammtímapláss fyrir fólk í hvíldarinnlögn. Þau pláss munu flytjast á Hlíð, en í fyrra var gripið til þess ráðs að loka einni deild þar, Birkihlíð, og þangað munu skammtímaplássin úr Kjarnalundi flytjast.  „Nú er hægt að skapa rými fyrir plássin úr Bakkahlíð, sem öll eru hjúkrunarpláss, yfir í Vestursíðu. Það rými sem til staðar er í Birkihlíð gerir það að verkum að slíkir flutningar eru mögulegir,“ segir Inda Björk.

Hún segir að starfsfólk og íbúar úr Bakkahlíð flytji nú saman í eina álmu í Vestursíðu og að sú ráðstöfun hafi verið gerð í samráði við þá sem hlut eiga að máli, starfsfólk og aðstandendur, en heilsufar íbúanna sé með þeim hætti að ekki hafi beint verið hægt að bera ákvörðun um flutning undir þá.  „Starfsfólkið er áhugasamt um flutninga og sér tækifæri til að búa vel að íbúum í álmunni í Vestursíðu líkt og nú er gert í Bakkahlíð,“ segir Inda Björk. Aðstæður muni batna til muna og eigi það við um alla, íbúa, starfsfólk og aðstandendur. Aðgangur að fagfólki batnar, þjálfun verður meiri og betri, afþreyging fjölbreyttari og eins aðgangur að hár- og fótsnyrtingu svo dæmi séu tekin.

Inda Björk segir að vegna mikll breytinga sem orðið hafi á árinu hafi fækkað á biðlistum eftir plássi í hjúkrunarrýmum og skammtímadvöl.  Þannig séu núna 14 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými, 9 eftir dvalarrými, 13 manns séu á biðlista eftir sammtímadvöl og 10 bíða eftir dagvist á Öldrunarstofnun Akureyrarbæjar. „Þetta þykir ekki langur biðlisti miðað við það sem oft hefur áður verið,“ segir Inda Björk.

 

 

 

 

Nýjast