Þjónusta við sífellt stækkandi hóp eldra fólks er eitt þeirra verkefna sem eru á könnu sveitarfélaga. Aðgerðaáætlun fyrir eldra fólk á Akureyri árin 2026 til 2030 var samþykkt í bæjarráði í lok nóvember, en áður hafði vinnuhópur verið að störfum um málefnið. Fyrsti hluti áætlunarinnar var samþykktur í bæjarráði við lok árs 2021.
Hallgrímur Gíslason fulltrúi í vinnuhópi um gerð áætlunarinmar segir að verkefnum í nýjum áfanga hafi ekki verið raðað í forgangsröð en nauðsynlegt sé að efla upplýsingagjöf, en einnig að skipuleggja heilsutengda fræðslu í félagsmiðstöðvunum Birtu og Sölku og víðar. Áætlað er að stofna sérstakan fræðsluhóp sem beri ábyrgð á framkvæmdinni. Það verði svo unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri og þau fyrirtæki og stofnanir sem starfa að heilsutengdum málefnum.
Verkefninu lýkur aldrei
„Húsnæðismál fyrir félagsstarf eldri borgara hafa mikið verið í umræðunni, nánast síðan um síðustu aldamót,“ segir Hallgrímur en þar sé um að ræða brýnt málefni sem skipta megi í tvennt. Annars vegar það sem áætlað er að verði gert árið 2026, en Akureyrarbær hefur veitt 30 milljónum króna á fjárhagsáætlun ársins í framkvæmdir í Sölku, Víðilundi 22, sem skiptast milli framkvæmda utanhúss til að bæta aðgengi að húsinu og framkvæmdir í kjallara hússins. Þar á að bæta loftræstingu og gera svæðin meira aðlaðandi. „Það er gaman að segja frá því að við gerð síðustu fjárhagsáætlunar var bætt við rúmum 22 milljónum til að stækka salinn í Birtu í kjallara Bjargs, án viðbyggingar,“ segir Hallgrímur. Öldungaráð Akureyrar hefur lýst yfir ánægju sinn með þá ákvörðun.
„Í hinum hluta húsnæðismálanna er gert ráð fyrir að unnið verði áfram að málinu og er vonast til að í síðasta lagi árið 2030 verði kominn góður skriður á málið og einhverjum verkefnum lokið, en í raun lýkur málinu aldrei því eldra fólki fjölgar og fjölgar.“
Matarmál og samgöngur
Hallgrímur nefnir að í áætluninni sé gert ráð fyrir að setja upp námskeið í notkun tölva og snjalltækja, en nauðsyn á slíkri kunnáttu eykst með hverju ári og er nauðsynlegt að eldra fólk kunni skil á grunnatriðum þegar að þeim kemur. Matur í félagsmiðstöðvunum hefur einnig borið á góma og segir Hallgrímur að vonast sé til að frá næsta hausti verði hægt að bjóða upp á næringarríkan heitan mat í hádeginu í Birtu og Sölku á hverjum virkum degi.
Samgöngur hafa einnig verið oft til umræðu „og er nauðsynlegt að finna leiðir til að auðvelda fólki að komast á þær dagskrár/viðburði/námskeið sem eru í boði. Margt eldra fólk getur nýtt sér strætisvagna og einnig eiga margir rétt á notkun ferlibíla. Sumir vita jafnvel ekki hvort þeir eigi slíkan rétt eða ekki og aðrir átta sig ekki á leiðakerfi strætó. Kynning á þessu er því nauðsynleg,“ segir hann.
Lífsgæðakjarni langstærsta verkefnið
Húsnæðismál eldra fólks, þar með talin skipulags- og byggingamál er verkefni sem þarf sífellt að sinna segir Hallgrímur. Langstærsta verkefnið á því sviði sé uppbygging lífsgæðakjarna og verði að hefjast handa við það á næstu árum.
„Félagsleg einangrun er stórt vandamál og er nauðsynlegt að setja fram hugmyndir og leita leiða til að rjúfa félagslega einangrun eldra fólks. Til þess þarf góða samvinnu ýmissa aðila og finna verkefni sem stuðla að því að fækka verulega í hópi þeirra sem búa við slíka einangrun,“ segir Hallgrímur.