Meistaraflokkur Völsungs í fótbolta var að spila æfingaleik á Húsavík gegn 2. flokki Þórs. Heimamenn höfðu mikla yfirburði og voru komnir í 7-0 þegar þjálfari Akureyringa sá að við svo búið mátti ekki standa og greip til róttækra ráðstafana til að rétta hlut sinna manna.
Og björgunaraðgerð þjálfarans, sem fólst í innáskiptingu, kom Völsungum vægast sagt í opna skjöldu. Því inn á skokkaði skyndilega hinn vel fullorðni og framgengni af fjalli, fyrrum leikmaður Völsungs og þáverandi fréttastjóri Dags, Kristján nokkur Kristjánsson og orðinn riðvaxinn svo mjög að buldi í foldu þá hann brokkaði eins og buffalótarfur um völlinn.
Einhver hafði orð á að þetta atvik markaði tímamót í knattspyrnusögunni. Það væri víða þekkt og talið nauðsynlegt að yngja upp lið, en að þyngja upp lið væri algjör nýjung í fræðunum! JS