Sigrún Jónsdóttir skrifar
Víða um land hefur verið mikil og góð vakning síðustu ár meðal fólks varðandi það hvernig umgengni okkar mannanna hefur áhrif á framtíð lífs á jörðu. Í Stórutjarnaskóla hefur verið unnið ötullega að þessum málum frá árinu 2008 og á síðasta ári öðlaðist skólinn grænfána Landverndar sem merki um þann árangur sem unnist hafði. Til að koma okkar málum áleiðis höfum við verið í góðu samstarfi við aðila á Akureyri en fyrst og fremst Gunnar Garðarsson sem var í forsvari fyrir Sagaplast ehf og Endurvinnsluna. Því við þurftum að læra að flokka og síðan að koma hráefninu í réttan farveg. Fyrir tilstylli Gunnars virtust þessi mál deginum ljósari, það eina sem við þyrftum að gera var að breyta þeim handtökum sem áður höfðu verið viðhöfð er kom að því að leggja frá sér tómar umbúðir. Frá upphafi flokkuðum við plastið í aðgreint hart plast og lint plast og ætlum að halda því áfram. Okkur fannst ekki þurfa sérstaklega að útskýra það að ekki væri gott að safna til lengri tíma umbúðum með matarafgöngum eða öðrum óæskilegum efnum.
Núverandi bæjarstjórn á Akureyri kom á flokkunarkerfi meðal Akureyringa fyrir nokkrum misserum sem okkur fannst afar gott framtak. En eftir á litið hefði líklega verið betra að fara hægar af stað því það virðist augljóst að enn er stór hópur fólks sem vill loka augunum fyrir því sem augljóslega er að gerast í umhverfinu nær og fjær og rekja má beint til lifnaðarhátta okkar mannanna.
Við viljum með þessu bréfi kom því á framfæri að það eru ekki eingöngu Akureyringar sem hafa not af flokkun Endurvinslustöðvarinnar, það gera líka sveitirnar í kring og það er hart fyrir þá sem hafa vandað sig við flokkun í lengri eða skemmri tíma að heyra svo að til eru slóðar og/eða sóðar sem verða þess valdandi að flokkun þeirra samviskusömu er fyrir borð borin.
Þetta er engan vegin ásættanlegt en okkur sýnist þó að engin leið sé til önnur en að halda ótrauð áfram því góða framtaki sem verið hefur í gangi og láta ekki deigan síga í flokkun. Það munum við gera og hvetjum alla til hins sama. Við eigum bara eina jörð.
Höfundur er í umhverfisnefnd Stórutjarnaskóla.