3 3 0 4 kallar Eyfirðinga!

Hjörtur Hjartarson skrifar

Gott fólk. Ég býð mig fram til stjórnlagaþings. Þar sem landið verður eitt kjördæmi í kosningunum 27. nóvember, er ég frambjóðandi Eyfirðinga eins og annarra landsmanna. Því tel ég sjálfsagða kurteisi að lýsa fyrir þeim hugmyndum mínum í sambandi við stjórnlagaþingið og væntanlega endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Málefni mér hugleikin

Ekkert ákvæði stjórnarskrárinnar er undanþegið endurskoðun, en sum málefni hafa verið mér hugleiknari en önnur. Raunveruleg þrískipting ríkisvalds, lýðræði og jafnrétti eru lykillinn að því að losa um skaðleg tök sérhagsmunaafla á íslensku samfélagi. Draga þarf skýrari mörk milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds og auka áhrif kjósenda í kosningum. Almenningur, þjóðin sjálf, þarf að geta gripið inn í mál á hverjum tíma og varið mikilvægustu hagsmuni sína. Mig langar að útskýra aðeins eitt þessara atriða nánar hér.

Þeir sem vilja geta fengið ítarlegri upplýsingar um mig og málefnin á vefsíðunni www.dagskammtur.wordpress.com.

Raunveruleg þrískipting ríkisvaldsins Ég ber virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins. Stjórnarskránni verður ekki kennt um hið efnahagslega, pólitíska og siðferðilega hrun sem landinu var stefnt í. Hins vegar er ég sannfærður um að einráðir formenn stjórnmálaflokka og einstakir ráðherrar hefðu ekki getað valsað um samfélagið eins og raun ber vitni, ekki síst hin síðari ár, ef raunveruleg þrískipting ríkisvaldsins hefði verið betur tryggð. Það hefði getað breytt miklu. Núverandi fyrirkomulag hefur fremur ýtt undir spillingu en hið gagnstæða. Því þarf að breyta. Hugmyndir þeirra sem vilja ganga lengst í aðskilnaði milli þriggja þátta ríkisvaldsins snúast um að framkvæmdavaldið verði kosið sérstaklega, óháð kosningum til Alþingis. Þar með yrði alveg skilið á milli Alþingis og ríkisstjórnar og svonefnd þingræðisregla afnumin. Ráðherrar þyrftu þá ekki stuðning meirihluta á Alþingi til að sitja í ríkisstjórn. Þeir sem skemur vilja ganga hafa haldið á lofti þeirri hugmynd að þingmenn sem setjast á ráðherrastól, eigi að segja af sér þingmennsku og kalla inn varamenn. Sem millileið mætti hugsa sér, til dæmis, að halda þingræðireglunni en að ráðherrar væru ekki valdir úr hópi kjörinna fulltrúa á Alþingi. Það þýddi þá að utanþingsstjórn væri reglan. Hugsanlegt væri líka að búa við nánast óbreytt fyrirkomulag en tryggja agaða og faglega stjórnsýslu með stjórnarskrárbundnum ákvæðum um framkvæmd tiltekinna embættisverka. Róttækar breytingar á stjórnskipan landsins verður að gera að vel athuguðu máli. Hitt þarf einnig að hafa í huga að það getur verið alvarleg yfirsjón að gera ekki nauðsynlegar breytingar meðan tækifæri gefst. Stjórnlagaþing er slíkt tækifæri. Ekki er víst að það gefist aftur næstu áratugi.

Með óskum um heillaríkt stjórnlagaþing.

Höfundur er frambjóðandi nr. 3 3 0 4.

Nýjast