Hönnuður vefsins er Haraldur Sigurðarson og forritari er Friðfinnur Gísli Skúlason. Umsögn dómnefndar: Glæsilegt samfélag um gönguferðir og útivist á heima á vefnum Glerárdalshringurinn. Þar hefur hópur fólks komið saman og skiptist á fréttum og öðru efnið varðandi gönguleiðir, útbúnað og fleira verðandi svæðið sem fjallað er um. Greinilegur metnaður er í uppsetningu, efnismeðferð og stöðugri uppfærslu vefsins sem er orðinn mjög efnismikill. Útlit hans er gott og þjónar markmiðum hans vel. Textar og myndir eru vel framsett og niðurstaðan er fjölbreytt flóra af upplýsingum. Þessi vefur sýnir hvernig einstaklingsframtak nýtur sín á Netinu.
Fjallaleiðsögn 24x24
Í sumar verður Glerárdalshringurinn 24x24 genginn í 5 skiptið og vilja aðstandendur meina að Glerárdalshringurinn sé erfiðasta skipulagða fjallganga sem hægt er að komast í hér á Íslandi. Þessi ganga ásamt öðrum skipulögðum ferðum félagsins eru um 30 á hverju ári. Ferðir hafa verið allt árið um kring og öll vinna við skipulagningu og leiðsögn hefur verið unnin í sjálfboðavinnu. En þessar ferðir auk Glerárdalshringsins sem verður sívinsælli hafa gefið félagsmönnum gífurlega reynslu. Þessa miklu reynslu vilja þeir nú virkja með því að bjóða upp á keyptar sérferðir, einkaleiðsögn, ráðgjöf og fljótlega tilbúnar pakkaferðir. Félagssvæðið er að sjálfsögðu Glerárdalurinn, Eyjafjörður og Tröllaskaginn. Allir sem vilja komast upp til fjalla með öruggri leiðsögn eru hvattir til að hafa samband.