Vandað málfar
Ólafur Pálmason magister hefur um áratuga skeið leiðbeint um íslenskt mál og lesið handrit og prófarkir að íslenskum ritverkum og skjölum opinberra stofnana. Á sínum tíma samdi hann gagnlegar leiðbeiningar um mál og málnotkun sem höfundur þessa þáttar hefur fengið leyfi til að birta að hluta. Í leiðbeiningum sínum bendir Ólafur Pálmason á að víða í máli reyni umfram allt á gagnorðan texta og rökrétt orðafar, skýran, látlausan og virðulegan stíl. Ef þessar meginreglur eru hafðar í heiðri getur það skipt sköpum um áhrif ritaðs og talaðs máls. Hér á eftir eru nokkrar leiðbeiningar Ólafs Pálmasonar.
Stuttar málsgreinar. Við punkt festir lesandi ósjálfrátt í minni efni málsgreinar ef hann hefur á annað borð skilið hana. Því styttri sem málsgrein er, því meiri líkur eru að jafnaði til þess að hún verði skilin og numin. Þess vegna má fullyrða að stuttar málsgreinar séu til þess fallnar að auka skýrleik texta. Langar málsgreinar þreyta lesanda á sama hátt og langar línur á textafleti. Því ætti að varast það sem kalla má endaleysu í rituðu máli. Algengt dæmi um endaleysu er ofnotkun tilvísunarsetninga, t.d. þegar tilvísunarfornafn vísar til margra orða eða heillar setningar. Í stað þess að nota tilvísunarsetningu eins og: Enn er óséð hver kostnaðurinn verður sem skiptir máli er áhrifameira að segja: Enn er óséð hver kostnaðurinn verður. Hann skiptir máli.
Hófleg notkun greinis. Eitt af því sem lyftir texta á hærra málstig er hóf á notkun viðskeytts greinis. Þessu til skýringar má bera saman afbrigði af þekktum orðum Hávamála :
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Deyr féð,
deyja frændurnir,
deyr sjálfur ið sama.
eða: Forysturíkin innan Evrópusambandsins - í stað þess að segja: Forysturíki Evrópusambandsins - ellegar: Hversu mikill er óbeini ávinningurinn af þeim breytingum? - í stað þess að segja: Hversu mikill er óbeinn ávinningur af þeim breytingum? Góð regla er að fara sérstaklega yfir texta með tilliti til þess að greini sé hvergi ofaukið.
Íslensk orðaröð. Gagnstætt venju í mörgum granntungum okkar er meginregla í íslensku að eignarfall - og eignarfornafn - standi á eftir því orði sem stjórnar fallinu, sbr.: Evran verður þeirra eini lögeyrir : Evran verður eini lögeyrir þeirra. Fyrirtækin stunda öll sín viðskipti : Fyrirtækin stunda öll viðskipti sín.
Síðar verður birt fleira úr málsfarsleiðbeiningum Ólafs Pálmasonar.