124. þáttur ,3. apríl 2014

Málrækt, málvernd, - og íslensk málstefna

Málrækt felst í því að rækta mál sitt: tala og rita gott og rétt mál. Málvernd felur í sér að vernda málið: varðveita merkingu orða, beygingar, framburð, orðaröð, setningaskipan, áherslur og hrynjandi og eru málrækt og málvernd tvær hliðar á sama fyrirbæri.  Málrækt á Íslandi stendur á gömlum merg: hófst með starfi „fyrsta málfræðingsins“ um miðja 12. öld - og stendur enn - og hefur borið þann árangur að íslenska hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú.  Málstefna er hins vegar opinber stefna í málnotkun sem fylgt er í skólum, sem kostaðir eru af ríkinu, og í opinberum stofnunum og felur í sér bæði málrækt og málvend - það sem einnig er nefnt málvöndun.

Íslendingar eignuðust hins vegar ekki málstefnu fyrr en 12. mars 2009 þegar Alþingi samþykkti með 36 atkvæðum - 27 alþingismenn voru fjarstaddir - tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu og „lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið [...] að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“

Samþykkt Alþingis markar á sinn hátt tímamót - ef eftir henni er farið.  Í íslenskri málstefnu er megináhersla lögð á að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu og tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. „Íslenska er sameign okkar sem tölum hana og því er framtíð hennar í okkar höndum,“ eins og segir í tillögum málnefndar.

Í tillögunum er bent á að nýir tímar krefjist nýrra úrlausnarefna.  Málstefnuna verði því að endurskoða reglulega. „Líklega verðum við ekki alltaf sammála um aðferðir og áherslur en mestu varðar að við séum sammála um að vinna öll að því aðalmarkmiði málstefnunnar að tryggja að íslenska verði áfram notuð um allt sem við hugsum og tökum okkur fyrir hendur alls staðar í íslensku samfélagi. Þannig tryggjum við best framtíð íslenskrar tungu. Á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta þar sem notkun erlendra tungna, einkum ensku, verður æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi er brýnt að tryggja stöðu íslenskrar tungu,“ segir þar. Íslensk málnefnd sér um framkvæmd málstefnunnar.  Mikilvægasta verkefnið er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu við breyttar aðstæður og verði áfram nothæf - og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Í málstefnunni segir einnig að allur almennur notendahugbúnaður í sko?lakerfinu, Stjórnarráði Íslands og opinberum stofnunum verði á íslensku innan þriggja ára.  Gerð verði a?ætlun um stuðning við uppbyggingu og þróun íslenskrar máltækni á næsta áratug og stöðugt unnið að uppbyggingu og eflingu mállegra gagnasafna og hugbúnaðar til að vinna með íslenskt mál verði gerður opin og frjáls eftir því sem kostur er.  Hugbúnaður til að lagfæra og leiðrétta íslenskt málfar verði kominn i? notkun innan þriggja ára, nothæf þýðingarforrit milli íslensku og valinna erlendra mála, a.m.k. ensku, gerð innan fimm ára og i?slenskur talgervill og talgreinir, sem gerðir voru a? vegum tungutækniátaks menntamálaráðuneytisins, endurbættir og lagaðir að nýjustu tækni - auk þess sem unnið verði markvisst að þróun mállegra samskiptakerfa milli manns og tölvu fyrir íslensku.

Fæst af þessu hefur enn séð dagsins ljós. Það er því enn mikið verk að vinna.

Tryggvi Gíslason,

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast