Málrugl og misskilningur
Í Morgunblaðinu 19. mars 2014 var að finna eftirfarandi fyrirsögn: Verri staða en menn vonuðust til. Eðlilegra hefði verið að segja: Verri staða en menn óttuðust eða Verri staða en menn bjuggust við - enda segir orðtakið: Vona það besta, búast við því versta.
Fyrirsögnin minnir á frétt í Ríkitúvarpinu um miðja síðustu öld. Ungur fréttamaður á Fréttastofu gamla Ríkisútvarpsins, Stefán Jónsson, síðar rithöfundur og alþingismaður, skrifaði frétt sem hljóðaði einhvern veginn á þennan hátt: Farþegavél bandaríska flugfélagsins Pan American World Airways hrapaði í sjóinn vestur af Írlandi í morgun. Þess er vænst að allir hafi farist. Jón Magnússon fréttastjóri, málvís og athugull, sagði við fréttamanninn unga: Heldurðu, Stefán, að væri ekki betra að segja: Óttast er að allir hafi farist? Stefán Jónsson féllst á það, því að auk þess að vera einkar skemmtilegur samstarfsmaður var hann námfús og gerhugull og að lokum orðvís - af því að hann vildi læra.
Auður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur frá Kristnesi sendi þættinum skemmtileg dæmi um undarlegt orðalag úr sjúkraskýrslum. Hér koma nokkur dæmi: Á öðrum degi var hnéð betra og á þriðja degi var það alveg horfið. Sjúklingi batnar ef lagst er ofan á hann. Sjúklingur fær verki í bringuna ef hún liggur á vinstri hliðinni lengur en eitt ár. Það sem fyllti mælirinn var þvagleki.
Stundum gerir fólk sér það til gamans að setja saman málrugl, sjálfum sér og öðrum til skemmtunar. Dæmi um þetta er: *Það er ekki hundur í hettunni, sbr. : Það er ekki hundrað í hættunni. *Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis, sbr. Allt fór úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis. *Þegar ein báran rís er önnur stök, sbr. Sjaldan er ein báran stök. *Hún sat eftir með súrt eplið, sbr. Sitja eftir með sárt ennið og Þykja súrt í broti. *Hann vissi ekki í hvort skrefið hann ætti að stíga. sbr. Vita ekki í hvorn fótinn á að stíga.
Valgeir S. Kárason á Sauðárkróki skrifaði þættinum og sagði sér þætti hvimleitt þegar menn tali um snjósleða en eigi við vélsleða, samanber fyrirsögn í Vikudegi 4. mars s.l.: Tjón af völdum snjósleða.
Samkvæmt ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands kemur orðið snjósleði fyrst fyrir í Árbók Þingeyinga árið 1967 þar sem segir: Tveir snjósleðar komu í dalinn, reyndust þeir hin þörfustu verkfæri við fjárleitir. Orðið vélsleði kemur hins vegar fyrst fyrir í prentuðu máli í Morgunblaðinu 16. janúar 1914. Þar stendur: Hvor vélsleði getur flutt 2000 pund. Þarna var verið að lýsa ferð Sir Ernest Henry Shackleton til Suðurskautsins árið 1914. Orðið vélsleði kemur síðan ekki fyrir í rituðu máli fyrr en í Náttúrufræðingnum árið 1951 sem skrifar: Síðar er ætlunin að reisa vistlegan skála í Esjufjöllum og hafa þar snjóbíla eða vélsleða til ferða um Vatnajökul. Ástæða er til að taka undir orð Valgeirs S. Kárasonar að orðið vélsleði lýsir betur þessu faratæki sem á öðrum Evrópumálum heitir snowscooter.
Tryggvi Gíslason