Húsavík í sviðsljósinu á ný: Heimabær allra í heimi

Húsavík er á ný orðinn kvikmyndabær og fór að taka á sig mynd sem slíkur nú í morgunsárið. Eins og Vikublaðið greindi frá í gær verður söngatriði í tengslum við Óskarstilnefningu lagsins Husa­vik – My Home Town úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga, tekið upp á höfninni á Húsavík í dag og kvöld. Atriðið verður síðan flutt á Óskarsverðlaunaafhendingunni sem fram fer aðfararnótt 26. apríl að íslenskum tíma; í Hollywood og sjónvarpað um allan heim. 

Sjá einnig: Húsavískur stúlknakór syngur á Óskarsverðlaunahátíðinni

Blaðamaður Vikublaðsins var á bryggjunni í morgun og hitti þar starfsfólk í tengslum við framleiðsluna sem var í óða önn við að undirbúa tökur. Að sögn starfsfólksins fer settið að taka á sig mynd nú um hádegið og að tökur myndu hefjast þegar líður á daginn. Þær fara síðan að miklu leiti fram í ljósaskiptunum.

Tökur á Húsavík

 Gríðarlega stórt verkefni

Það er engum blöðum um það að fletta að Húsavík fær gríðarlega landkynningu í tengslum við atriðið ofan á alla þá athygli sem bærinn hefur fengið allt frá því að Netflix myndin var tekin upp.

SJÁ EINNIG: NÝTT „ÓSKARINN HEIM“ MYNDBAND KOMIÐ Í LOFTIÐ

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings lýsti atburðarásinni í aðdraganda þess að verkefnið komst á laggirnar sem ótrúlegri, í samtali við Vikublaðið.

Kristján Þór Magnússon

„Í tengslum við gerð „Óskarinn heim“ myndbandanna hafa komist á tengsl við bæði fólk innan Netflix og lagahöfunda lagsins. ÞAð hafa verið mjög góð samskipti í þó nokkurn tíma. Þannig að tengingarnar voru komnar þegar það kom í ljós að Molly gæti ekki flutt lagið með hefðbundnum hætti vegna sóttvarnareglna. Lagahöfundarnir vildu þá strax fljúga Molly Sandén til Húsavíkur og gera þetta hér. Sú atburðarás hófst bara fyrir þremur dögum“ segir hann og bætir við að lagahöfundar hafi frá upphafi lýst yfir ósk sinni um að heimsækja Húsavík við fyrsta tækifæri; og þá með Ósakarsstyttuna í farteskinu ef þeir vinna hana.

Það er ljóst að verkefnið er gríðarlega stórt. Kvikmyndaframleiðsla af þessari stærðargráðu er yfirleitt í fleiri vikur í undirbúningi. Kristján segir að grettistaki hafi verið lyft við að gera þetta á svo stuttum tíma og tekur fram að Örlygur Hnefill Örlygsson eigi mikinn heiður skilið fyrir hans framlag. Örlygur hefur verið í forsvari fyrir „Óskarinn heim“ herferðina og komið á mikilvægum tengingum. Án þeirra væri þetta verkefni líklega ekki að raungerast. Kristján segir jafnframt að aðkoma kvikmyndafyrirtækisins True North sé afar miklivæg en fyrirtækið sér um framleiðslu myndbandsins í samtarfi við Netflix og Örlyg. „Það var mikið gæfuspor að fá True North inn í verkefnið. Þar er fagmennska í fyrirrúmi. Þeim lánaðist strax að koma atburðarásinni í réttan farveg m.a. með tilliti til sóttvarna.“ Molly Sandén, skilaði neikvæðu COVID-prófi áður en hún lagði af stað til til Íslands og aftur við komuna til landsins. Allir sem starfa á tökustað fara einnig í sýnatökur. Molly og aðstandendur myndbandsins sem komu til landsins fóru í svokallaða B-sóttkví eins og aðrir sem starfa að kvikmyndaverkefnum. 

 

Lyftir stemningunni í bænum

Kristján dregur heldur ekkert úr þeim áhrifum sem verkefni af þessu tagi hefur fyrir samfélagið, bæði fjárhagslegan en alls ekki síður félagslegan. „Það leynir sér ekki að þetta er að lyfta upp allri stemningu í bænum,“ segir Kristján. Þar hefur hann lög að mæla og eru Húsavíkingar oðnir mjög spenntir fyrir Óskarsverðlaunaafhendingunni. Búið er að mála rauðan dregill á aðalgötu bæjarins en hún verður skreytt frekar á mánudag áður en dregillinn verður opnaður með formlegum hætti.

SJÁ EINNIG: RAUÐI DREGILLINN KOMINN Á MALBIKIÐ

„Okkur er í lófa lagt að spila vel út þessu og fylgja þessu vel eftir,“ segir Kristján og bendir m.a. á að Heimabakarí muni baka Óskarskökur og að reikna megi með því að sjá alls konar tilboð á veitingastöðum bæjarins í tengslum við hátíðina. „Svo má ekki gleyma því að þetta er heilmikið ævintýri fyrir börnin sem fá að taka þátt í þessu.“

Stúlknakór


Nýjast