Húsvískur stúlknakór syngur á Óskarsverðlaunahátíðinni

Óskarsverðlaunaævintýri Húsavíkur hefur náð nýjum hæðum en eins og lesendur ættu að hafa heyrt er  lagið Husa­vik – My Home Town úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga tilnefnt til Óskarsverðlauna.

Venja er að lögin sem tilnefnd eru til verðlaunanna séu flutt á sviði á hátíðinni sjálfri sem fram fer aðfararnótt mánudagsins 26. apríl nk. að íslenskum tíma. Óvenjuleg atburðarás fór hins vegar af stað fyrir fáeinum dögum vegna hertra Covid-reglna vestan hafs. Söngkonan sænska; Molly Sandén fékk ekki tímabundið atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og getur því ekki flutt lagið á sviði eins og til stóð.

Sú hugmynd vaknaði því að flutningur lagsins yrði tekinn upp á Húsavík og myndbandið sýnt á Óskarsverðlaunaafhendingunni.

 

Kvikmyndafyrirtækið True North framleiðir myndbandið í samstarfi við Netflix og Örlyg Hnefil Örlygsson sem hefur gert garðinn frægan með kynningarmyndböndum fyrir lagið.

Molly Sandén flaug frá Svíþjóð í dag, föstudag með einkaþotu og lenti á Akureyri. Hún fór í sýnatöku sem kom neikvæð út áður en hún ferðaðist til landsins og ný sýnataka fór fram  þegar hún lenti á Akureyri.

Tökulið frá True North er komið til Húsavíkur en leikstjórn verður í höndum Egils Arnar Egilssonar sem gengur undir nafninu Eagle Egilsson. Hann er þrautreyndur leikstjóri sem starfað hefur um árabil í Bandaríkjunum og meðal annars leikstýrt fjölda CSI spennuþátta sem nutu mikilla vinsælda fyrir nokkrum árum.

„Þessi atburðarrás hófst fyrir þremur dögum þegar þessi hugmynd var borin upp og síðan hefur allt verið sett á fullt,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings í samtali við Vikublaðið og bætir við að hann sé afar ánægður með framvinduna. Hann bendir á að hluti af myndbandinu verði flugeldasýning sem hafi þurft að fá undanþáguleyfi fyrir. Húsavíkingar geti því orðið varir við flugelda frá klukkan 15 á morgun, laugardag og eitthvað fram eftir kvöldi. Tökur fara fram á Hafnarsvæðinu á Húsavík.

Húsvískur stúlkankór syngur í myndbandinu

Óskarinn 2021

Ekki er öll sagan sögð því alls 17 stúlkur, 10-11 ára úr 5. bekk Borgarhólsskóla á Húsavík hafa verið valdar til að syngja með Molly í atriðinu. Ekki á hverjum degi sem húsvískur stúlknakór syngur á Óskarsverðlaunahátíðinni sem sjónvarpað er beint um allan heim. 

„Ég er bara hoppandi af gleði,“ sagði Ásta Magnúsdóttir í samtali við Vikublaðið en hún er kórstjóri stúlknakórsins. „Ég meina; þetta er Óskarinn,“ bætti hún við og var augljóslega hátt uppi vegna verkefnisins. Hún sagði jafnframt að hljóðupptökur færu fram seinni partinn í dag (föstudag) og svo yrði atriðið kvikmyndað á morgun, laugardag.

Það er deginum ljósara að Húsavík, þessi litli friðsæli bær við Skjálfandaflóa hafi aldrei verið jafn mikið í sviðsljósinu en um þesssar mundir.


Athugasemdir

Nýjast