„Mér finnst haustin æðisleg" Guðrún Kristín Björgvinsdóttir umsjónamaður Lystigarðsins í viðtali við vef Akureyrarbæjar.

Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónamaður Lystigarðsins á Akureyri       Mynd  Axel Darri
Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónamaður Lystigarðsins á Akureyri Mynd Axel Darri

Guðrún Kristín Björgvinsdóttir, umsjónamaður Lystigarðsins á Akureyri, hefur unnið í garðinum í tæp 11 ár. Guðrún, sem elskar haustið, er Akureyringur vikunnar á facebooksíðu Akureyrarbæjar

Guðrún er fædd og uppalin á Dalvík en flutti til Akureyrar árið 1998 til að hefja nám í VMA. „Ég starfaði hjá bænum á sumrin og byrjaði sem sumarblómastelpa. Árið 2000 flutti ég suður í tvö ár til að stunda nám í Garðyrkjuskólanum, en kom alltaf norður yfir sumarið til að halda áfram að vinna í blómunum.“

Lystigarðurinn er vinsæll ferðamannastaður og tekur árlega á móti um 180-200 þúsund gestum. Guðrún segir Íslendinga þó aðeins vera lítinn hluta gestanna. „Við fáum til okkar allar rúturnar, flesta farþega af skipunum og svo líka fólk sem ferðast á eigin vegum. Það koma allir til okkar - en Íslendingar mættu vera duglegri að njóta garðsins.“

Að hennar sögn vekur garðurinn mikla hrifningu hjá erlendum ferðamönnum. „Staðsetningin er mjög sérstök – hann er svona norðarlega á landinu og í brekku, sem er óvenjulegt. Hér er fjöldi stórra, gamalla trjáa, runna, fjölærar plöntur, tjarnir og gosbrunnur. Garðurinn er kannski ekki stór en flóran á þessum litla fleti er ótrúlega fjölbreytt. Fólk á ekki til orð og mér finnst þessi garður það flottasta sem er til. Þetta er algjör paradís.“

Nú þegar haustið gengur í garð tekur Lystigarðurinn á sig nýja mynd. „Mér finnst haustin æðisleg og er alltaf til í hverja árstíð. Á sumrin er mikið að gera en nú róast aðeins. Fallegir litir birtast í reynitrjánum og aspirnar gulna og fella lauf. Á haustin er oft stafalogn hér og svo, þegar fyrsti snjórinn fellur og allt hrímast, verður garðurinn alveg stórkostlega fallegur. Lystigarðurinn er svo mikill kyrrðarstaður - þótt fuglalífið sé rosalegt um þessar mundir. Berin á reynitrjánum eru orðin æt og fuglarnir extra glaðir.“

En á hún sér uppáhaldsplöntu? „Ég fæ mjög oft þessa spurningu,“ segir hún hlæjandi. „Á haustin er það kvöldloginn – það er bara ein slík planta í garðinum. Haustloginn blómstrar í ágúst og september og er mjög fallegur. Annars held ég upp á svo margt og finnst allur gróður æðislegur. Meira að segja lambaklukka, sem telst vera illgresi, hún er mjög falleg.“

Nýjast