ÍBA fagnar 80 ára afmæli með íþróttahátíð í Boganum
Íþróttabandalag Akureyrar, ÍBA, fagnar 80 ára afmæli sínu með sannkallaðri íþróttahátíð í Boganum næstkomandi laugardag, 7. desember frá kl. 13 til 17. ÍBA var stofnað 20. desember árið 1944. Innan vébanda ÍBA eru tuttugu íþróttafélög og munu flest þeirra vera á staðnum og kynna starfsemi sína og leyfa gestum og gangandi að prufa hinar ýmsu íþróttagreinar en innan aðildarfélaga ÍBA eru stundaðar hátt í 50 íþróttagreinar. Góðir gestir líta við og í boði verða léttar veitingar. Svo skemmtilega vill til að á laugardag fagnar eitt aðildarfélaganna, Íþróttafélagið Akur, 50 ára afmæli sínu og verður því fagnað sérstaklega á hátíðinni.