
Vátryggingafélag Íslands (Skagi) kaupir Íslensk verðbréf
Vátryggingafélag Íslands hf. (Skagi) hefur undirritað kaupsamning við hluthafa Íslenskra verðbréfa hf. (ÍV) um kaup Skaga á 97,07% hlutafjár í félaginu. Horft er til þess að í kjölfarið verði farið í kaup hlutafjár annarra hluthafa þannig að Skagi verði einn eigandi alls hlutafjár í Íslenskum verðbréfum. Kaupverð 97,07% hlutafjár í Íslenskum verðbréfum er 1.598 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að kaupverðið verði greitt með reiðufé, en Skagi hefur val um að greiða allt að fjórðungi kaupverðsins með afhendingu nýs hlutafjár í Skaga. Fyrirtækjaráðgjöf og sérhæfðar fjárfestingar eru undanskilin í kaupunum. Jóhann M. Ólafsson, forstjóri ÍV, hefur stigið til hliðar og Jón Helgi Pétursson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða, hefur tekið tímabundið við sem forstjóri félagsins.