Jólasöfnun Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis hafin
Stöðug fjölgun er í hópi þeirra sem óska eftir aðstoð Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. Úthlutað er úr sjóðnum yfir allt árið þó flestir sækist eftir aðstoð fyrir hátíðarnar. Fyrir jólin 2023 barst metfjöldi umsókna en með góðum stuðningi frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum var hægt að styðja við þau heimili sem þurftu hjálp. Stjórn sjóðsins gerir ráð fyrir að umsóknir nú verði síst færri en í fyrra. Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis og Rauði krossinn við Eyjafjörð hafa frá árinu 2013 haft samstarf um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu og síðustu þrjú ár hefur samstarfið verið yfir allt árið.