VMA stóð ekki við samkomulag

Verkmenntaskólinn á Akureyri. Mynd úr safni.
Verkmenntaskólinn á Akureyri. Mynd úr safni.

Eins og komið hefur fram fyrr í dag héldu skólastjórnendur Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) krísufund með starfsfólki vegna þess fjárhagsvanda sem skólinn finnur sig í. Til greina gæti komið að senda nemendur við skólann heim í næstu viku ef ástandið breytist ekki.

Frétt Vikudags.is: Gæti þurft að senda nemendur VMA heim í næstu viku

Samkomulag var gert á milli VMA, menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis í vor en síðan þá hefur fjárhagsstaða skólans versnað og rekstraráætlun því ekki gengið eftir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV hefur fjárhagsstaða skólans versnað um að minnsta kosti sjö milljónir króna síðan í vor, þrátt fyrir samkomulagið sem fólst í því að Fjársýsla ríkisins myndi halda áfram að greiða skólanum rekstrarfé, þrátt fyrir rekstrarhalla árin á undan. Áður hafði verið lokað á greiðslur til skólans, og annarra skóla í sömu sporum.

Rekstraráætlun sem VMA lagði fram við gerð samkomulagsins miðaðist við að hægt yrði að greiða niður hluta af skuldunum. Nú er hins vegar ljóst að sú áætlun hefur ekki gengið eftir og því hafi Fjársýsla ríkisins lokað á frekari fjárframlög til skólans.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í svari við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen, þingmanns VG, á Alþingi í dag, að skólinn hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins heldur aukið á skuldir sínar.

 

Nýjast