Gæti þurft að senda nemendur VMA heim í næstu viku
Í morgun héldu skólastjórnendur Verkmenntaskólans á Akureyri krísufund með starfsmönnum skólans vegna þess fjárhagsvanda sem skólinn finnur sig í. Til greina gæti komið að senda nemendur við skólann heim í næstu viku ef ástandið breytist ekki. Þetta kemur fram á Vísi.is
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, tilkynnti á fundinum í morgun að búið sé að loka á fjárframlög til skólans. „Þetta kom upp fyrir helgi. Ég hef verið í sambandi við aðila í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem eru að vinna í þessu máli, en Fjársýslan virðist ekki hafa samþykkt þá ráðstöfun sem samið var um í ráðuneytinu í vor um að fá að dreifa okkar skuld á næstu tvö til þrjú árin þannig að við værum að fá framlög.“
Öll innkaup bönnuð
Þá segir Sigríður Huld að skólinn skuldi ríkissjóði um 24 milljónir króna og er hún búin að setja blátt bann við öll innkaup þar til frekari svör berast. „Ef þetta er lokaniðurstaðan, að Fjársýslan og fjármálaráðuneytið ætli ekki að gera menntamálaráðuneytinu kleift að standa við það samkomulag sem þau gerðu við okkur, þá verðum við að bíða með innkaup þar til að nemendur eru búnir að borga efnisgjöld. Við erum ekki búin að rukka nemendur um þau, en það verður gert á næstu dögum,“ segir Sigríður Huld.
Gætu þurft að senda nemendur heim
Skólameistarinn hefur miklar áhyggjur af að bann við innkaupum mun fljótlega hafa mikil áhrif á nám, sér í lagi brautum eins og matvælabrautinni. Hún segir að nemendur hafi aðföng út þessa viku, en veit ekki hvað geist eftir það. Hún veltir fyrir sér hvort senda þurfi nemendur heim af því að það eru ekki til aðföng. „Ef við eigum ekki að fá krónu í framlög til að borga fyrir aðföng og borga reikninga, standa við þjónustusamninga, þá segir það sig sjálft að erfitt er að reka skóla.“
15 framhaldsskólar í mínus
Sigríður Huld bendir á að fimmtán framhaldsskólar eru reknir í mínus ef mið er tekið af fyrstu sex mánuðum ársins í ríkisreikningi. Þá segir hún nauðsynlegt að mennta- og menningarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið séu samstíga og bætir við að nýir kjarasamningar kennara hafi ekki verið bættur að fullu til skólanna.