05. apríl, 2009 - 19:56
Fréttir
Alþingi samþykkti nýlega frumvarp um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað en áður var hlutfallið 60%. Nýju
lögin ná yfir íbúðarhúsnæði og sumarbústaði sem er nýmæli. Þetta er tímabundin ráðstöfun og gildir
til 1. janúar 2011. Stefán Jónsson, málarameistari og formaður Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi segir þessa breytingu vera mjög
jákvæða.
„Þetta kemur vonandi til með að fjölga verkefnum fyrir iðnaðarmenn og einnig mun þetta sennilega minnka svörtu vinnuna hjá mönnum,"
sagði Stefán. Nú er í bígerð hjá Samtökum iðnaðarins að fara í herferð til að kynna þessa breytingu á
lögum og sagðist Stefán vonast til þess að hún verði til þess að fólk taki við sér og ráðist í verk sem ella
hefðu beðið. Þar með muni atvinnutækifærum iðnaðarmanna fjölga.