Útgáfa þónokkurra blaða, sem eru innan félagsins Pressunnar, hefur verið stöðvuð og ekki er fyrirséð hvort eða hvenær blöðin koma út á ný. Allur rekstur félagsins hefur verið stöðvaður og báðum starfsmönnum þess sagt upp störfum. Blöðin sem um ræðir eru Akureyri Vikublað, önnur landshlutablöð sem komið hafa út hálfsmánaðarlega síðustu misseri og sjávarútvegsblaðið Aldan. Frá þessu er greint á mbl.is
„Það er nú kannski ekki alveg þannig að búið sé að leggja þau niður, heldur er það þannig að við höfum stöðvað allan rekstur sem fram fer í félaginu Pressan, til þess að félagið sé ekki að safna frekari skuldum sem ólíklegt er að það geti staðið skil á, prentkostnaði, umbrotskostnaði eða öðru slíku,“ segir Ómar R. Valdimarsson, stjórnarformaður Pressunnar í samtali við mbl.is.