Tökum þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamningana

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Nýir kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins hafa verið undirritaðir. Næsta verkefni er að kynna samningana áður en félagsmenn greiða atkvæði um þá. Félagsmenn sem starfa eftir samningunum á almenna markaðnum taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Ekki er búið að semja fyrir þá félagsmenn sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum.

Aðgerðir sem ríkisstjórnin kom með að borðinu í Karphúsinu var lykillinn að því að hægt var að ljúka við samningana.

Að mínu viti eru þetta nokkuð góðir og skynsamlegir samningar, þar sem sérstök áhersla er lögð á að bæta hag ungs fólks og tekjulágra. Sömuleiðis er samið um fastar krónutöluhækkanir, sem er hagstæðast fyrir tekjulága.

Fleiri baráttumál verkalýðshreyfingarinnar mætti nefna, svo sem styttingu vinnuvikunnar, vaxtalækkun, aðgerðir í húsnæðismálum, lágtekjuþrep í skattkerfinu, lengingu fæðingarorlofs og aðgerðir til að afnema verðtryggingu.

Helstu atriði kjarasamningsins

 • Kjarasamningurinn gildir frá 1. apríl 2019 - 1. nóvember 2022
 • 17 þúsund kr. hækkun á öll mánaðarlaun 1. apríl 2019  
 • Lægstu laun hækka mest, hækkunin er um 30%  á samningstímanum.
 • Aukið vinnustaðalýðræði með möguleika á verulegri styttingu vinnutímans (mestu vinnutímabreytingar í tæpa hálfa öld)
 • 26 þúsund króna eingreiðsla sem kemur til útborgunar í byrjun maí 2019
 • Skilyrði sköpuð fyrir verulegri vaxtalækkun á samningstímanum
 • Skattbyrði hinna tekjulægstu lækkar um 10 þúsund kr. á mánuði
 • Almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf:
  1. apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
  1. apríl 2020 18.000 kr.
  1. janúar 2021 15.750 kr.
  1. janúar 2022 17.250 kr.
 • Kauptaxtar hækka sérstaklega:
  1. apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
  1. apríl 2020 24.000 kr.
  1. janúar 2021 24.000 kr.
  1. janúar 2022 25.000 kr.
 • Kjaratengdir liðir  kjarasamninga hækka um 2,5%  á sömu dagsetningum, nema um annað hafi verið samið.
 • Á árunum 2020-2023 komi til framkvæmda launaauki að gefinni ákveðinni þróun á vergri landsframleiðslu á hvern íbúa.
 • Lágmarkstekjur fyrir fullt starf:
  1. apríl 2019 317.000 krónur í mánaðarlaun
  1. apríl 2020 335.000 kr.
  1. janúar 2021 351.000 kr.
  1. janúar 2022 368.000 kr.
 • Desemberuppbót (var 89.000 kr. 2018):
  2019 92.000 kr.
  2020 94.000 kr.
  2021 96.000 kr.
  2022 98.000 kr.
 • Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (var 48.000 kr. 2018):
  1. maí 2019 50.000 kr.
  1. maí 2020 51.000 kr.
  1. maí 2021 52.000 kr.
  1. maí 2022 53.000 kr.

Forsendur kjarasamninganna

 • Kaupmáttur launa hafi aukist á samningstímabilinu skv. launavísitölu Hagstofu Íslands.
 • Vextir lækki verulega fram að endurskoðun samninganna í september 2020 og haldist lágir út samningstímann.
 • Stjórnvöld standi við gefin fyrirheit skv. yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninganna.

Helstu atriði í innleggi ríkisstjórnarinnar:

 • Nýtt lágtekjuþrep í þriggja þrepa skattkerfi. Ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins aukast um 10.000 kr/mánuði.
 • Húsnæðismál: 2 milljarðar í viðbót í stofnframlög 2020-2022 ca. 1.800 íbúðir, unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að leiðum til að auðvelda ungu fólki fyrstu kaup og núverandi heimild til nýtingar á séreignasparnaði verður framlengd.
 • Lífeyrismál: lögfest verður heimild til að ráðstafa 3,5% í tilgreinda séreign, sem heimilt verður að ráðstafa til húsnæðismála með tíma- og fjárhæðartakmörkunum. Farið verður í endurskoðun lífeyristökualdurs í samráði við aðila.
 • Fæðingarorlof lengist úr 9 mánuðum í 10 í byrjun árs 2020 og lengist í 12 mánuði í byrjun árs 2021.
 • Tekið verður á kennitöluflakki samkvæmt tillögum ASÍ og SA og heimildir til refsinga auknar. Keðjuábyrgð um opinber innkaup verður lögfest. Fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu á aukna aðstoð og vernd.
 • Verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára verða bönnuð frá 2020 nema með ákveðnum skilyrðum. Frá byrjun árs 2020 verður lágmarkstími verðtryggðra neytendalána lengdur úr 5 í 10 ár. Spornað verður við sjálfvirkum vísitöluhækkunum vöru, þjónustu og skammtímasamninga.

Félagsmenn hafa síðasta orðið

Atkvæðagreiðsla um samningana er rafræn, allar upplýsingar eru á á heimasíðu Einingar-Iðju, www.ein.is. Þar er sömuleiðis hægt að lesa samningana og annað ítarefni.

Atkvæðagreiðslan hefst þann 12. apríl og lýkur klukkan 16:00 þann 23. apríl.

Eining-Iðja boðar til almennra félagsfunda á öllu félagssvæðinu, þar sem farið verður yfir öll atriði samninganna.

Mikilvægt er að félagsmenn kynni sér samningana eins vel og kostur er og taki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Eining-Iðja undirbjó kröfugerðina með markvissum og faglegum hætti. Síðasta skrefið er að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, aðeins með þeim hætti geta félagsmenn sagt sitt álit á samningunum.

Félagsmenn hafa síðasta orðið í þessum efnum.

Stöndum saman og tökum þátt í atkvæðagreiðslunni.

-Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands


Nýjast