Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja vildi ekki ræða við Vikudag um þessi mál, en hann sagði í samtali við RÚV, að þetta væri nauðsynleg aðgerð til að bregðast við kvótaskerðingu, en fyrirtækið hyggst fjölga í flota sínum á næsta fiskveiðiári.
Konráð Alfreðsson segir að í áhöfn Víðis auk afleysingamanna séu yfir 30 sjómenn og að líkindum á milli 15 og 17 á Árbak, þannig að hátt í 50 sjómenn missi vinnuna í kjölfar þess að skipunum verði lagt. "Þetta snertir fjölmargar fjölskyldur, líklega um 160 manns í allt þannig að þetta er gríðarlegt áfall," segir Konráð. Hann segir tíðindin þó ekki að öllu leyti koma á óvart, "og það er sjálfsagt bara tímaspursmál hvenær til dæmis Kaldbak verði lagt," segir hann. Umhverfið sé með þeim hætti nú á tímum kvótaniðurskurðar og nýrrar tækni við veiðar og vinnslu að það sé sjómönnum langt í frá hagstætt. Nú er mikið um að í landi sé unnið úr frystum fiski, hann þíddur upp þegar í land er komið. "Það er þróun í þessum efnum sem öðrum og við henni er ekki hægt að sporna," segir Konráð.
Hann segir að uppsagnir félagsmanna í Sjómannafélagi Eyjafjarðar sé áfall, sjómönnum fækki ár frá ári og staðan nú í ár sé alls ekki góð, "ég sé ekki fyrir mér hvað þessir menn eiga að fara að gera, staðan á atvinnumarkaði er ekki með besta móti um þessar mundir, þannig að þetta eru í alla staði mjög slæm tíðindi." Hann segist hafa miklar áhyggjur af stöðu útgerðar í Eyjafirði almennt og nefnir sem dæmi að á fyrrum stórútgerðarstaðnum Akureyri sjáist vart skip nú orðið. "Þau eru nánast alveg horfin og það má segja að það séu engin skip gerð út héðan lengur."