Tilraunir í stofuglugganum

Gaman er að reyna koma avókadóplöntu á legg. Mynd/epe
Gaman er að reyna koma avókadóplöntu á legg. Mynd/epe

Mold undir nöglum

 


 

Hluti af því að vera blómaáhugamaður er að gera alls konar tilraunir, sama hversu gáfulegar þær eru. Í dag er ég með tvær skemmtilegar tilraunir í gangi. Annars vegar setti ég niður fræ úr lífrænni sítrónu úr Nettó en það eru komnar þrjár litlar plöntur sem virðast ætla að komast á legg. Hins vegar spíraði ég fræ úr avókadóávexti og setti að lokum í mold. Það er tilrauninn sem ég ætla að fjalla um að þessu sinni.

Sítrónutré

Tilraunir við að koma avókadóplöntum á legg nýtur vaxandi vinsælda hér á landi og finna má ógrynni myndbanda á youtube þar sem ferlið er sýnt,- misgáfuleg samt.

Ég er einn þeirra sem fallið hefur í freistni við að rækta avókadóplöntu en ég geri mér þó fulla grein fyrir því að hún hentar afar illa sem stofublóm á Íslandi og nær útilokað er að hún beri nokkurn tíma ávöxt. Hafsteinn Hafliðason sem heldur úti Stofublóm Plantan inniblóm pottablóm hópnum á Facebook sagði eitt sinn; að rækta avokadótré sem stofuplöntu á Íslandi væri eins og að vera með hund og halda honum í svelti. Plantan mín dafnar þó enn mjög vel hjá mér í austurglugga og vex afar hratt en það verður áskorun að halda í henni lífinu í vetur.

SJÁ EINNIG: BLÓM ER GJÖF SEM GLEÐUR

Svona fór ég að:

Ég tók steininn úr lífrænu avókadó sem ég keypti í næstu verslun og gætti þess að skera ekki í fræið. Utan á fræinu er þunnt brúnt flus sem ég plokkaði af (getur verið þolinmæðisvinna). Því næst vafði ég fræið inn í vel rakann eldhúspappír og stakk ofan í „ziplock“ poka. Pokanum kom ég fyrir inni í skáp. Þetta gerði ég í byrjun febrúar og það var ekki fyrr en í lok mars að fræið klauf sig og rótin fór að gægjast út.

Þá tók ég fræið úr pokanum og stakk þremur tannstönglum í það (gæta þess að stinga þeim ekki í rákirnar á fræinu). Þá setti ég vatn í litla krukku og kom fræinu fyrir þannig að aðeins um helmingur fræsins lá í vatninu (tannstönglarnir koma í veg fyrir að fræið fari alveg á kaf). Krukkunni kom ég fyrir í glugga þar sem mesta birtu var að fá og við tók löng bið. Rótin óx reyndar afar hratt og hringaði sig niður á botninn en það var ekki fyrr en í lok apríl að plantan fór að vaxa upp úr fræinu en síðan hefur hún vaxið mjög hratt.

Avókadó

Þegar komin voru 4-5 falleg blöð þá setti ég fræið í mold en það þarf að fara mjög varlega með ræturnar, þær eru viðkvæmar og það er viðbúið að það hægist á vextinum fyrstu vikurnar eftir að plantan fer í mold. Ég hef verið nokkuð heppinn með fræ og stöngullinn hefur gefið af sér fjöldann allan af stórum og fallegum blöðum.

Avókadóplantan þarf mikla birtu og vökvun. Það þarf einnig að gefa vel af áburði þar sem hún er frek á nitur og fosfór. Græna þruman hefur dugað mér vel hingað til. Ef plantan á hins vegar að þola skammdegi íslenska vetrarins þá held ég nauðsynlegt sé að hafa gott gróðurljós. Spennandi verður að fylgjast með því hversu langlíf tilraunin verður.

Pistlarnir undir flokknum Með Mold undir nöglum er skrifaðir af áhugamennsku en ekki sérfræðikunnáttu, aðferðum sem lýst er í greinaflokknum þurfa ekki endilega að vera þær bestu. Hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar á netfangið egillpall@vikubladid.is


Athugasemdir

Nýjast