Blóm er gjöf sem gleður

Mold undir nöglum


 

Vinir mínir segja margir að ég sé klikkaður enda aukast sífellt öfgarnar í pottablómaáhugamáli mínu. Í dag á ég eina plöntu fyrir hverja viku ársins eða alls 52 og þeim á eflaust eftir að fjölga. Plönturnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Allt frá litlum kaktusum, hawaii rósum, stórum drekatrjám og eitt nýlegt ólívutré svo dæmi sé tekið.

Kóral

Erfitt er að gera upp á milli blómanna sinna en alltaf á ég mér einhver uppáhöld þó það breytist reglulega. T.d. fékk ég í vetur mjög sérstaka plöntu sem kallast kóralkaktus. Um er að ræða blending tveggja plantna sem hefur verið skeytt saman og er kaktusinn afar sérstæður í útliti. Ég hef alltaf hrifist af hinu sérstæða og því var nýji kaktusinn minn í miklu uppáhaldi til að byrja með. Hann datt þó fljótt úr toppsætinu því það þarf nánast ekkert að hafa fyrir honum. Ég er með hann í s-austur glugga og sný honum af og til, vökva hann í mesta lagi einu sinni í mánuði og hann dafnar vel. Ég kýs að þurfa hafa aðeins meira fyrir blómunum mínum.

Mest gefandi í blómaræktinni er þegar manni er gefin lítil og vesældarleg planta og tekst að koma henni vel á legg. Uppáhalds plantan mín í dag er svo kallað peningablóm (Pilea Peperomioides). Peningablómið er eitt það vinsælasta á Íslandi í dag enda hraðvaxta planta sem auðveld er í umhirðu.

Blóm er gjöf

Ekki gefast upp

Ég fékk mitt peningablóm sem lítinn græðling að gjöf frá góðri vinkonu minni seint síðasta sumar. Mér gekk afleitlega að fá það til að dafna, það óx lítið sem ekkert og blöðin hengu niður á slöppum stilkunum. Ég reyndi allt sem mér datt í hug og leitaði ráða hjá internetinu, færði það á milli staða og veitti alla mína ást en allt kom fyrir ekki. Snemma nú í vor ákvað ég að umpotta peningablóminu mínu. Setti það í hefðbundna pottamold sem ég hafði blandað með slatta af vikri. Enn sá ég engar framfarir og var búin að ákveða að henda því þegar lengra liði á vorið ef það tæki ekki við sér.

Ég er feginn að hafa gefið því séns því frá apríl lokum fór blómið að taka við sér. Það hefur síðan stækkað ört og kemur sífellt með ný blöð. Klárt uppáhald. Ég er með það í suðaustur glugga en er með hlíf á bak við það sem skýlir því fyrir beinum sólargeislum. Það kann greinilega vel við mikla birtu.

Smá leiðbeiningar:

  • Kjörhitastig: 15-26 gráður á celsíus
  • Forðist að flytja það mikið úr stað.
  • Gefið gjarna grænu þrumuna einu sinni í mánuði yfir vaxtartímann.
  • Vökvið með volgu vatni þegar moldin er orðin þurr 2-3 cm frá yfirborðinu.
  • Hafið blómið í potti með drenholum og ef pottahlíf er notuð, gætið þess að hún sé vel víð svo loft komist að rótunum.
  • Peningablómið kann vel við sig í góðri eða meðalbirtu en þolir ekki beint sólarljós.
  • Gott er að snúa plöntunni reglulega en bara lítið í einu svo hún fá jafna birtu allan hringinn. Þannig verður vöxturinn jafn og fallegur.
  • Auðvelt er að fjölga plöntunni með að taka afleggjara, láta róta sig í vatni og koma svo fyrir í mold.

 Pistlarnir undir flokknum Með Mold undir nöglum er skrifað af áhugamennsku en ekki sérfræðikunnáttu, aðferðum sem lýst er í greinaflokknum þurfa ekki endilega að vera þær bestu. Hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar á netfangið egillpall@vikubladid.is


Athugasemdir

Nýjast