"Það bendir allt til þess að farþegafjöldinn verði svipaður í ár, fyrstu mánuðir þessa árs voru nokkru betri en sömu mánuðir í fyrra, fleiri fóru um völlinn, en nú síðastliðna þrjá mánuði hefur lítillega dregið úr farþegafjöldanum. Þeir eru slakari en sömu mánuðir í fyrra. Við vitum svo auðvitað ekkert hver þróunin verður," segir Sigurður. Áhrif efnahagskreppunnar virðist enn sem komið er ekki hafa sett sitt mark á fólk sem ferðast með áætlunarflugi innanlands í miklum mæli og hefur Sigurður ákveðnar væntingar um að t.d. höfuðborgarbúar muni í auknum mæli leggja leið sína til Akureyrar eftir áramót í stað þess að ferðast til útlanda. "Ég geri ráð fyrir að fólk muni sækja hingað á skíði og fleira eftir áramótin," segir hann.
Sigurður segir það vissulega mjög gott að ná sambærilegri tölu farþega á Akureyrarflugvelli nú í ár, því liðið ár, 2007 hafi verið mjög gott. Farþegar á ferð innanlands eru álíka margir og í fyrra en millilandafarþegarnir örlítið færri, m.a. vegna þess að í sumar þurfti að senda farþega í millilandaflugi tvívegis til Egilsstaða vegna framkvæmda við flugbrautina á Akureyri. Þá féll einnig niður ferð sem fara átti í beinu flugi til Lundúna nú í haust.