Soffía sækist eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins

Soffía Lárusdóttir, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar í vor. Soffía er forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi. Soffía er 48 ára gömul, fædd og uppalin á Kirkjubæjarklaustri en hefur verðið búsett á Egilsstöðum í 24 ár.   

Soffía er með B.A. próf í þroskaþjálfafræðum og hefur lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Hún hefur verið forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 2004 og setið í bæjarráði frá 2006. Hún er varaformaður launanefndar sveitarfélaga. Soffía er formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins og situr í miðstjórn hans. Hún á sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélags Fljótsdalshéraðs og er fulltrúi í stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna. Maki Soffíu er Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri og bæjarfulltrúi. Eiga þau fimm börn og sjö barnabörn.    

Nýjast