Garðarshólmi, myndasaga Hugleiks Dagssonar í Símaskránni í fyrra, vakti mikla athygli og var fyrsta upplag af skránni rifið út á þremur dögum. Áberandi var að yngra fólk sótti Símaskrána í mun meira mæli í fyrra þegar myndasagan spurðist út. Hugleikur var fenginn til að teikna framhaldssögu, sem prýðir Símaskrána í ár, auk þess sem hann teiknaði forsíðumyndina. Myndasagan er óbeint framhald af Garðarshólma, en þar koma fram fleiri nýjar persónur.
Gulu síðurnar eru fremst í bókinni og innihalda yfir 2.000 vöru- og þjónustuflokka. Efnisyfirlit Gulu síðnanna er á ensku og pólsku, auk íslensku. Þar er innskot með veitingastöðum sem flokkaðir eru á handhægan máta, þannig að auðvelt er að fá yfirsýn yfir úrval staða með ítalskan mat, kínverskan, indverskan, heimilismat og skyndibita, svo að nokkuð sé nefnt. Við leit á Gulu síðunum þarf ekki að vita nafn fyrirtækis, heldur er nóg að fletta upp á leitarorði, t.d. læknir, málari, hárgreiðslustofa o.s.frv.
Símaskráin er umhverfisvæn og pappírinn sem í hana er notaður kemur úr sjálfbærum skógum. Blek, lím og pappír, sem notað er í bókina, er að öllu leyti niðurbrjótanlegt og algjörlega skaðlaust náttúrunni. Hvert eintak vegur um tvö kíló og er bókin 1.620 blaðsíður. Hin hefðbundna Símaskrá er afhent án gjalds en harðspjaldaútgáfan kostar kr. 700. Ritstjóri Símaskrárinnar er Guðrún María Guðmundsdóttir.
Á höfuðborgarsvæðinu verður hægt að nálgast Símaskrána í verslunum Krónunnar, Símans, Vodafone og á
bensínstöðvum Skeljungs og Olís. Á bensínstöðvunum og hjá Símanum við Ármúla verða einnig
móttökugámar fyrir eldri Símaskrár. Á landsbyggðinni verður Símaskráin afhent á öllum afgreiðslustöðum
Póstsins þar sem einnig verður tekið við eldri skrám. Ennfremur verður hægt að nálgast skrána í verslunum Símans og Vodafone
á Akureyri. Á dreifbýlustu svæðunum sér Pósturinn um að keyra Símaskrána heim til viðtakenda.