Réðist á sambýliskonu sína

Karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi af Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir grófa líkamsárás gegn sambýliskonu sinni. Árásin átti sér stað á heimili þeirra þann 10. júlí á síðasta ári. Maðurinn sló konuna m.a. í andlitið og tók um axlir hennar og hrinti henni á afturbak, með þeim afleiðingum að hún féll aftur fyrir sig og höfuðkúpubrotnaði. Maðurinn heldur því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða og konan hafi ógnað sér með skærum.

 

Fram kemur í dómi að ákærði hafi töluverðan sakaferil að baki, en honum hefur tíu sinnum verið gerð refsing. Má þar nefna að í júlí 2008 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot og þjófnað og var þá eins mánaðar skilorðsdómur fyrir samskonar brot dæmdur upp.  

Í desember 2008 var hann svo dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir gripdeild, þjófnað og þjófnaðartilraun.  Þá hefur hann tvívegis verið dæmdur fyrir minniháttar líkamsárás, í janúar og maí 1998. Í ljósi þessa mun héraðsdómur ekki skilorðsbinda dóminn.

Maðurinn er einnig dæmdur til þess að greiða konunni rúmar 400 þúsund krónur í bætur. 

Nýjast