Fyrsta mark leiksins kom síðan eftir aðeins fimm mínútna leik. Rakel Hönnudóttir fékk þá stungusendingu frá Mateju Zver inn fyrir vörn gestanna og skoraði af öryggi og kom heimastúlkum í 1-0. Rakel var svo aftur á ferðinni á 17. mínútu leiksins er hún fékk boltann í teig gestanna, lagði hann fyrir sig og skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Staðan 2-0.
Eftir þetta misstu Þórs/KA stúlkur dampinn en þó ekki lengi því Rakel Hönnudóttir fullkomnaði þrennu sína í leiknum er hún skoraði þriðja mark Þórs/KA á 40. mínútu með þrumuskoti inn í teig. Staðan í hálfleik, 3-0.
Seinni hálfleikurinn var rólegur framan af. Afturelding/Fjölnir sótti í sig veðrið en tókst lítið að koma sér áleiðis gegn sterkri vörn Þórs/KA. Heimastúlkur fengu nokkur ágætis færi til þess að bæta við marki þegar líða tók á seinni hálfleikinn og átti Rakel Hönnudóttir m.a. skot í stöng. Það var svo á 69. mínútu leiksins að fjórða mark heimastúlkna leit dagsins ljós og það skoraði Katla Óska Káradóttir með fínu skoti af stuttu færi inn í teig gestanna eftir sendingu frá Rakel Hönnudóttur. Staðan 4-0.
Þegar sjö mínútur voru til leiksloka bætti Arna Sif Ásgrímsdóttir við fimmta marki Þórs/KA. Vesna Smiljkovic, sem kom inn á sem varamaður, átti sendingu fyrir mark gestanna og Arna renndi boltanum auðveldlega í netið. Staðan 5-0. Aðeins tveimur mínútum síðar eða á 85. mínútu leiksins náðu gestirnir að minnka muninn í 5-1 með marki frá Aldísi Mjöll Helgadóttur af stuttu færi.
Lokatölur á Þórsvelli, 5-1 sigur Þórs/KA sem eftir leikinn hefur 36 stig í þriðja sæti deildarinnar.