Páll Viðar: Eigum fína möguleika

Mér líst bara vel á þetta og það var fyrir öllu að fá heimaleikinn,“ sagði Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs við Vikudag um bikardráttinn í undanúrslitum karla í knattspyrnu. Þórsarar fengu heimaleik gegn ÍBV er dregið var í hádeginu í dag og verður leikið á Þórsvelli fimmtudaginn 28. júlí. Í hinum undanúrslitaleiknum í karlaflokki mætast BÍ/Bolungarvík og KR fyrir vestan. Páll segir möguleika Þórs vera ágæta.

 

„Við eigum góða möguleika á heimavelli en við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara spila á móti einu besta liði landsins. Við þurfum því að vera vel á tánum ef við ætlum okkur í úrslitaleikinn,“ sagði Páll.

Liðin mættust í deildarleik í byrjun júní á Þórsvelli og þar höfðu norðanmenn betur, 2:1. „Þetta er besta liðið sem við höfum mætt í sumar og þó að við höfum unnið þá um daginn að þá er ljóst að við verðum að hafa mikið fyrir þessu,“ segir hann.

Nýjast