Neyðarúrræði að beita þvingunum til að sameina sveitarfélög

Oddvitar nágrannasveitarfélaga Akureyrar, Hörgárbyggðar og Svalbarðsstrandarhrepps eru ósammála samgönguráðherra sem hefur viðrað þá skoðun sína að sveitarfélögum verði að fækka þó svo að beita þurfi til þess valdboði.  Kristján L. Möller samgönguráðherra vill helst að lámarksíbúatala hvers sveitarfélags sé 1000 manns en hún er nú 50 manns. Sveitarfélögum hefur fækkað umtalsvert á liðnum árum, þau voru 200 árið 1990 en eru nú 79 talsins, í 46 þeirra eru íbúar færri en 1000. Ríflega 400 manns búa í Hörgárbyggð, sveitarfélagi sem varð til með sameiningu þriggja hreppa fyrir nokkrum árum.  "Mér finnst ekkert aðkallandi að fara út í frekari sameiningu, en veit að Akureyringa dauðlangar að sameinast okkur, líklega vegna þess lands sem við höfum yfir að ráða," segir Helgi B. Steinsson á Syðri-Bægisá, oddviti Hörgárbyggðar.  Hann segir afkomu sveitarfélagsins góða og menn finni ekki fyrir fámenninu  "Það er alltaf afstætt hvað er rétt stærð, það fer auðvitað svolítið eftir því hvernig dreifbýli og þéttbýli fara saman," segir Helgi. Að hans mati er sameining sveitarfélaga með þvingunum neyðarúrræði.  Frjálsar sameiningar að undangengnum viðræðum sé það sem koma skal.  Helgi segir að vissulega geti sú staða komið upp að sveitarfélög ráði ekki við verkefni sín og þá leiti þau samvinnu eða samstarfs við nágranna sína.  "Það er algjört neyðarúrræði að þvinga menn saman og mér finnst stökkið líka mikið, frá 50 upp í þúsund."

Guðmundur Bjarnason í Svalbarði, oddviti Svalbarðsstrandarhrepps  er einnig ósammála ráðherra og nefnir að sveitarfélög með eitt þúsund íbúa geti líka átt erfitt uppdráttar svo sem dæmin sanni.  "Sveitarfélög með 1-2 þúsund íbúa eiga langerfiðast," segir hann og bendir á að þau þurfi að vera umtalsvert stærri.  Guðmundur segir rekstur Svalbarðsstrandarhepps ganga vel og á þessari stundu sé ekkert sem kalli á sameiningu við annað sveitarfélag.  Hvað síðar verði komi í ljós, en vissulega horfi menn að sumu leyti til sameiningar við Akureyri þegar fram líða stundir.  "Það er lang eðlilegast að menn leysi sín mál heima í héraði, að farið verði í viðræður um sameiningu þegar og ef menn óska þess sjálfir, ekki með valdboði ofan frá," segir hann.

Nýjast