Mikil gleði og aðsókn á Akureyrarvöku

Það var mikil gleði og ánægja meðal þeirra sem nutu fyrstu viðburða Akureyrarvöku 2011 en hún var sett í Lystigarðinum í gærkvöld og hafa aldrei verið svona margir gestir í garðinum við þetta tilefni. Draugaslóð Minjasafnsins, Leikfélags Akureyrar og Leikfélags Hörgdæla hefur heldur aldrei verið svo fjölmenn. Á Torfunefsbryggju var hugguleg bryggjuballsstemning og voru margir sem fóru í rómantíska siglingu um Pollinn eftir miðnætti.   

Nú rekur hver viðburðurinn annan á Akureyrarvöku og er fólk hvatt til að drífa sig í miðbæinn og njóta dagsins.  Í kvöld munu herlegheitin hefjast kl. 20.30 með áherslu á eyfirska hönnun sem staðsett verður víða en fyrsti viðburðurinn undir yfirskriftinni Litríkur og lifandi miðbær er tískusýning staðsett á bátnum Húna II.  Fjöldi viðburða s.s. dans, söngur  verða á miðbæjarsvæðinu til klukkan 22 en þá er fólk hvatt til að rölta á Ráðhústorg og verða vitni að frábærri sirkussýningu hjá Sirkus Íslands. Að lokinni sirkussýningunni verður hægt að tylla sér á heybagga og njóta huggulegra harmonikkutóna. Dagskrána í heild sinni er að finna á vefnum www.visitakureyri

Nýjast