Í gær, þriðjudag var formlega opnaður nýr endurhæfingar- og útivistarstígur í Kristnesskógi í Eyjafirði. Stígurinn er malbikaður og hannaður með þarfir hreyfihamlaðra í huga svo sem flestir geti notið útivistar og hreyfingar í skóginum. Stígurinn er steinsnar frá Kristnesspítala þar sem rekin er endurhæfingardeild og öldrunardeild. Með þessum stíg skapast einstök aðstaða til útivistar og endurhæfningar.
Við opnunina flutti formaður Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á Akureyri og nágrenni, ávarp, einnig Ingvar Þóroddsson yfirlæknir og Rúnar Ísleifsson skógarvörður.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti styrki til framkvæmdanna á þessu ári og því síðasta. „Stígurinn verður kærkominn fyrir alla gesti skógarins en þó ekki síst fólk sem nýtur aðhlynningar og endurhæfingar á Kristnesspítala þar sem er bæði endurhæfingardeild og öldrunarlækningadeild,“ segir á vef Skógræktarinnar.