23. maí, 2009 - 14:33
Fréttir
Vinnsla í landvinnslu Brims hf. á Akureyri, hefur gengið vel það sem af er árinu. Samtals hafa verið unnin yfir 3.300 tonn af hráefni í vinnslunni
og er það 55% aukning miðað við sama tímabil árið 2008. Þriðjungur afurða hefur farið ferskur á markað, beint til neytenda sem
hágæða ferskar afurðir. Aðrar afurðir eru frystar og fara ýmist beint í neytendaumbúðir eða til frekari vinnslu og pökkunar erlendis.
„Það hefur gengið vel hjá okkur það sem af er ári í vinnslunni á Akureyri. Það eru nokkrir samverkandi þættir sem
hafa gert okkur þetta kleift, en grunnurinn er náttúrulega að hægt sé að selja afurðirnar en það hefur gengið ágætlega
þessa mánuði,“ segir Ágúst Torfi Hauksson hjá Brim á Akureyri. Starfsfólk í landvinnslunni nýtur góðs af
þessum árangri. Búið er að ráða rúmlega 40 starfsmenn í sumarafleysingar.