23. mars, 2009 - 21:00
Fréttir
Háskólinn á Akureyri og Landsvirkjun hafa undirritað samstarfssamning um rannsóknir. Samningurinn er framlenging á fyrri samningi sem var upprunalega gerður
í apríl 2001 og framlengdur 2007. Markmið samningsins er að efla grunnrannsóknir á þeim fagsviðum er tengjast rannsóknum og nýtingu
á orkulindum landsins og áhrifum hennar á samfélag og umhverfi.
Það verður gert með því að styrkja kennslu og rannsóknir við Háskólann á Akureyri. Árlegt framlag Landsvirkjunar til
háskólans nemur einu stöðugildi prófessors og á móti kemur árlegt vinnuframlag sérfræðinga Háskólans við
rannsóknarverkefni og sérfræðistörf fyrir Landsvirkjun.
Meðal verkefna sem sérfræðingar Háskólans á Akureyri hafa unnið að undanfarið og munu vinna á næstunni í tengslum við
samninginn eru:
- Gerð áhættumats fyrir Landsvirkjun vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda fyrirtækisins á háhitasvæðunum á norðausturlandi
undir stjórn Axels Björnssonar prófessors.
- Úttekt á grunnvatni og afrennsli grunnvatns frá Þeistareykjum og Gjástykki undir stjórn Hrefnu Kristmannsdóttur prófessors. Sú
úttekt verður liður í almennu umhverfismati vegna fyrirhugaðra virkjana.
Áformuð eru frekari samstarfsverkefni í tengslum við virkjun háhitasvæðanna á norðausturlandi.