Kom til greina að opna Bónusverslun á Húsavík
Eins og áður hefur verið fjallað um á dagskrain.is, þá gekkst baráttuhópur um bætta matvöruverslun á Húsavík fyrir undirskriftasöfnun dagana 21. júlí til 1. ágúst.
Þar er skorað á forsvarsmenn Bónuss og Krónunnar að íhuga það alvarlega að opna verslanir á Húsavík. „Ég tek skýrt fram að Nettó er í sjálfu sér ágætis verslun og ekkert út á starfsfólkið þar að setja sem vinnur sín störf með miklum ágætum við afar erfiðar aðstæður. Málið er bara að húsnæðið er alltof lítið, m.a. vegna þess að “túristaverslunin” Krambúðin þjónar hvorki túristum nér bæjarbúum að neinu gagni, einkum vegna verðlagsins þar, þannig að nánast allir þyrpast í Nettó,” segir Hlífar Karlsson einn úr baráttuhópnum.
Bónus hefur íhugað að opna verslun
Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónuss sagði í svari við fyrirspurn dagskráarinnar.is að það hafi verið skoðað áður að opna verslun á Húsavík en hætt hafi verið við áformin vegna breytinga á deiliskipulagi.
„Við höfum skoðað Húsavík með opnum hug og vorum spenntir fyrir staðsetningu niður við höfnina en því miður þá var það skipulag dregið til baka og okkur sagt að það stæði okkur ekki til boða og fyrirhugað væri nýtt skipulag ofar í bænum, okkar áform miðuðust við hafnarsvæðið og þá traffík sem er þar í kring og munum skoða þann möguleika áfram ef eitthvað breytist,“ sagði Guðmundur.
Ekki hafði borist svar frá Krónunni við vinnslu fréttarinnar.