Kartöflubændur búast við minni uppskeru í ár en í fyrra
„Það er aðeins byrjað að líta undir grösin en þetta er alls ekki orðið nógu gott ennþá," segir Bergvin Jóhannsson
bóndi í Áshóli í Grýtubakkahreppi og formaður Félags kartöflubænda. Bergvin segir að kartöflubændur þurfi
að bíða í einhverja daga enn þar til hægt er að hefja kartöfluupptöku af fullum krafti. „Við áttum von á þessu,
vorið var mjög kalt og allur júnímánuður líka, svo að það er allt seinna á ferðinni þetta haustið en vant er," segir
hann.
Bergvin á von á að uppskera í haust verði í slöku meðallagi, en enn sé þó einhver von um að úr geti ræst, það fari eftir veðri nú síðsumars. „Við eigum þó ekki endilega von á að það verði miklar breytingar og að uppskera verði minni en var í fyrrahaust," segir Bergvin. Nokkrir kartöflubændur í Eyjafirði hafa tekið upp eitthvert smáræði, svona rétt til að skoða og senda fyrsta skammt í verslanir, enda bíða margir spenntir eftir nýrri kartöfluuppskeru á þessum árstíma.