Jóhannes Geir Sigurgeirsson frá Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi sem haldin var í Skagafirði nýverið.
Viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.
Saga ferðaþjónustu á Öngulsstöðum nær tæplega þrjátíu ár aftur í tímann, þegar fjósi og hlöðu var breytt í veitingastað og gistihús. Um tíma var reksturinn leigður út en árið 2012 tók Jóhannes aftur við rekstrinum og stofnaði Lamb Inn, þar sem lögð var áhersla á lambakjöt á veitingastaðnum eins og nafnið gefur til kynna.
Jóhannes hefur látið til sín taka á vettvangi ferðaþjónustu, hvort sem er á Norðurlandi eða landsvísu. Þar hefur hann nýtt reynslu sína af þingmennsku og stjórnarsetu í hinum ýmsu félögum og fyrirtækjum, til að efla áfangastaðinn Norðurland og stuðla að samstarfi innan ferðaþjónustu og faglegrar þróunar hennar.