Þau Berglind Aðalsteinsdóttir, tvíburabræðurnir Gunnar Sverrir Ragnars og Eiríkur Geir Ragnars, Kári Erlingsson og Arnar Þór Emilsson eyddu rúmum tveimur vikum á fjallinu. Shivling er 6.543 metra hátt og komst hópurinn langleiðina upp á tind fjallsins eða í um 6.120 metra hæð. Þar þurfti hannað snúa við vegna veðurs og erfiðra aðstæðna. Akureysku ungmennin segja á vefsíðu sinni að það hafi auðvitað verið gríðarleg vonbrigði að hafa ekki náð tindinum en að því takmarki höfðu þau stefnt í marga mánuði. "Fjallið er samt þarna ennþá og við erum ennþá hérna," bæta þau við.
Einnig kemur fram á vefsíðunni að því miður hafi þau ekki haft tíma til bíða í nokkra daga og sjá hvort aðstæður breyttust þarna uppi, þannig að hægt yrði að gera aðra tilraun við tindinn. "Til að bæta gráu ofan á svart, vorum við líka að verða matarlaus þarna á hryggnum en himalayarefur hafði komist í matarbirgðirnar á hryggnum og étið og stolið miklu af matnum okkar," segja ungmenninn einnig á vefsíðu sinni . Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskur leiðangur freistar þess að ganga á fjallið, sem þykir eftirsóknarvert takmark bestu fjallgöngumanna heims. Aðeins einn hópur fær leyfi til að reyna við fjallið í einu.